fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Eyjan

Teikningar Sigmundar og Reykjavik Development

Egill Helgason
Þriðjudaginn 12. apríl 2016 10:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vekur ákveðinn ugg að félag sem áður hét Landstólpi og ætlar að reisa byggingar af áður óþekktri stærð í miðborg Reykjavíkur skuli nú heita Reykjavik Developments.

Það er einhver útblásinn tónn í þessu – minnir á stemminguna fyrir hrun. Ýmislegt sem er að gerast í borginni ber reyndar keim af þeim tíma. Braskið er á yfirsnúningi.

Byggingarframkvæmdir hefjast víst við hið svonnefnda Hafnartorg síðar í þessum mánuði. Ég hef margoft áður lýst skoðun minni á arkitektúrnum þarna, hann er andlaus, hugmyndalaus og ekki í neinu samræmi við borgina í kring. Allt snýst um að hámarka byggingamagnið.

Björn Ólafs, arkitekt í París, spurði í blaðagrein hvort vantaði vilja og metnað til að til að gera Kvosina að fallegu umhverfi.

En þetta mál er allt að verða hið einkennilegasta, ekki síst vegna inngripa Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í dag birtist þessi teikning sem mun vera skyssa af Hafnartorginu frá hendi forsætisráðherrans nýhætta. Þarna sjáum við drætti frá Hótel Borg, Reykjavíkurapóteki, steinsteypuklassík við Laugaveginn – áhrifin frá Guðjóni Samúelssyni leyna sér ekki.

 

B90JIC3zMOAN_1600x1000_QhLRx0TY

 

Það verður að segja eins og er að það er dálítið einkennilegt til þess að hugsa að forsætisráðherra hafi setið í ráðuneyti sínu og búið til svona teikningar og meira að segja látið þær frá sér. Í besta falli er hægt að segja að þetta sé nördalegt – og dálítið bernskt.

Sigmundur var í óða önn við að flytja málefni minja- og húsaverndar undir forsætisráðuneytið, líkt og hann yrði þar sálfur til eilífðarnóns með sín áhugamál. En nú er búið veita byggingaleyfi fyrir þessum framkvæmdum. Ólíklegt er að nýr forsætisráðherra grípi inn í. Ekki er vitað til þess að hann hafi áhuga á byggingalist eða borgarskipulagi – hann er dýralæknir og sveitamaður, líklegt er að áhugasvið hans liggi frekar þar.

Hafnartorgið mun rísa eins og sést hér að neðan, flatt og óáhugavert, tákn um brjálaða þenslu sem er í hús- og hótelbyggingum í hinum túristavædda miðbæ. Annað tákn er holan risastóra sem er búið að grafa undir gömul hús á Laugavegi og þar sem er nú farið að moka inn fyrir lóðamörk hjá nágrönnum.

Nafnið Reykjavík Development hljómar eins og illur fyrirboði. Það er „alþjóðlega sjoppulegt“ eins og Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifar hér á Eyjuna. Sigmundur sem reyndi að sporna á móti er nú úthrópaður og fyrirlitinn, tilhneigingin er að snúast helst á móti öllu sem hann hefur gert eða frá honum kemur. Teikningarnar hans gera varla annað en að vekja furðu og festa Hafnartorgið í sessi fremur en hitt. Byggingaraðilarnir geta flaggað þeim, svona til marks um hvað andstaða við áform þeirra er fánýt.

Framkvæmdirnar verða eins og verktakarnir og fjárfestarnir vilja –  skítt með fagurfræðina og samræmið. Fáir verða til að andmæla eða benda á þessa öfugþróun – Hilmar arkitekt sem var nefndur hér áðan er einn af fáum eins og lesa má í nýrri grein eftir hann og reyndar er forvitnilegt að sjá ummæli við grein hans, en nokkur þeirra koma frá arkitektum.

 

v63nwvJCgXMS_2036x1272_PbY_pMis

 

Hilmar Þór Björnsson skrifar í áðurnefndri grein:

Sagt er að alþjóðlegi modernisminn sé dauður.

Sagt er að hefðbundin og staðbundin byggingarlist hafi aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Hér á landi eru margir orðnir þreyttir á hinum alþjóðlega modernisma. Þetta sjónarmið er alþjóðlegt og nýtur vaxandi fylgis.

Menn segja að modernisminn sé allstaðar, en eigi hvergi heima.

Fólk vill ekki lengur sjá hann í gömlum miðborgum. Fólk vill staðbundinn arkitektúr sem hvergi á heima annarsstaðar.

Þetta er kennt í arkitektaskólunum og það vita þetta allir. Fjárfestar, stjórnmálamenn og margir praktíserandi arkitektar virðast ekki hafa áttað sig alminnlega á þessu. Það er verið að ræða þetta um allan heim, nema hér á landi. Það er reyndar nánast engin umræða um arkitektúr hér á landi.

Heimurinn hefur skroppið saman og fólk ferðast um víða veröld til þess að skoða sérkenni staðanna sem heimafólk er að breyta og gera alþjóðlega! Fletja sérkenni staðanna út þar til þeir hverfa.

Trausti Valsson, prófessor í skipulagsfræði:

Með hippatímabilinu kom nokkur skilningur á í hvaða ógöngur módernisminn væri búinn okkur í, t.d. með gler/steypu monsterinu eftir endilangri Bernhöfstorfu og skrímsli sem Seðlabankinn lét hanna á Fríkirkjuvegi 11, og seinna í túnfæti Arnarhóls. Hippar og listamenn tóku saman höndum … og eyðileggingu miðbæjarins var forðað í þetta skiptið.

Nú er aftur verið að gera hliðstæða atlögu að miðbænum t.d. með Hafnartorgi og gámastæðu-hóteli við Vonarstræti og Lækjargötu. Margir hafa verið slegnir algerri blindu, líkt og var áður. Nú þarf nýtt átak til að opna augu fólks.

Guðjón Erlendsson arkitekt:

Tillögurnar sem á að byggja í miðborg Reykjavíkur eru hins vegar algjör hörmung. Þýskur módernismi sem á ekki heima nokkursstaðar. Hönnunin er eitthvað sem lítur út fyrir að vera 20 ára gömul og er í engu samhengi, hvorki við staðarhætti eða nútímann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
Eyjan
Fyrir 1 viku

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi