Þingrof felur í sér að boða verður til kosninga innan 45 daga.
Nú er sagt að Sigmundur Davíð hóti Sjálfstæðismönnum þingrofi ef þeir styðja hann ekki. Það er ansi stór og dramatískur leikur.
Það myndi þýða að kjósa yrði seinnipartinn í maí, þegar mánuður er til forsetakosninga.
Þetta yrði ávísun á stjórnmálaátök þar sem allt er undir. Forsetakosningar og þingkosningar myndu tengjast eins og þær hafa aldrei gert áður í sögu lýðveldisins.
Ef Sigmundi er alvara með þessari hótun sinni er greinilegt að hann er ekki á útleið úr stjórnmálum sjálfviljugur, hann myndi ætlast til að leiða Framsóknarflokkinn í kosningum – nema þá þeir setji hann sjálfir af. Og kosningarnar myndu algjörlega snúast um hann.
Eins og áður hefur komið fram rauf Ólafur Jóhannesson þing við fall vinstri stjórnarinnar 1974.
Í stjórnmálasögunni eru dæmi um að farin hafi verið leið minnihlutastjórna. Við fall stjórnarinnar 1958 tók við minnihlutastjórn Alþýðuflokksins og sat í nær ár, gekk undir nafninu Emilía eftir Emil Jónssyni forsætisráðherra.
Og við fall stjórnarinnar 1979 tók við önnur minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, þá undir forystu Benedikts Gröndal og sat í fimm mánuði fram að kosningum.
Nú standa spjótin á Bjarna Benediktssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni.
Lætur Bjarni undan hótun Sigmundar? Og Ólafur Ragnar – finnur hann stjórnskipulega leið út úr þessari kreppu?
Viðbót kl. 12.50. Ólafur Ragnar veitir Sigmundi ekki heimild til þingrofs.