Sigmundur Davíð situr áfram. Erfitt, kannski ómögulegt.
Sigmundur Davíð segir af sér, annar Framsóknarmaður tekur við forsætisráðuneytinu. Ekki sérlega líklegt.
Bjarni Benediktsson heldur tekur við sem forsætisráðherra, en ríkisstjórnin situr áfram. Sætta Framsóknarmenn sig við það, líka erfitt vegna tengsla Bjarna við aflandsfélög.
Annar Sjálfstæðismaður en Bjarni verður forsætisráðherra í ríkisstjórninni sem annars heldur áfram. Ólíklegt.
Sigmundur Davíð rýfur þing upp á sitt eindæmi og það verður að kjósa eftir 45 daga. Hugsanlegt. Ávísun á mikil átök, enginn flokkur er í raun tilbúinn í kosningar.
Bjarni Benediktsson segir af sér og stillir þannig Sigmundi upp við vegg. Þá er það Sjálfstæðisflokkurinn sem virðist sýna ábyrgð. Ekki sennilegt.
Stjórnarslit. Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins tekur við og situr fram á haust og þá verður kosið. Ekki svo fjarlægur möguleiki.
Sjálfstæðisflokkurinn myndar ríkisstjórn með stjórnarandstöðuflokkum. Eiginlega alveg óhugsandi.
Utanþingsstjórn, fyrir atbeina forseta Íslands. Gerist varla.
Ólafur Ragnar Grímsson, klókasti stjórnmálamaður Íslands, grípur inn í atburðarásina. Raunveruleg tæki hans til þess eru þó takmörkuð, hann hefur meira áhrifavald en aðrir íslenskir stjórnmálamenn, en getur þó ekki rofið þing upp á sitt eindæmi.
Þarna myndi reyna á ríkulega pólitíska sköpunargáfu forsetans.
Meira að segja DV sem hefur verið hallara undir Sigmund Davíð en flestir fjölmiðlar segir að þetta sé „Búið“.