Hvaða furðulega flétta er þetta sem kemur úr forsætisráðuneytinu síðla kvölds? Loga þar ennþá ljósin hjá Sigmundi og sveitinni í kringum hann?
Blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar sendir erlendum fjölmiðlum tilkynningu þess efnis að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé ekki að segja af sér, Sigurður Ingi Jóhannsson sé bara að leysa hann af um tíma.
Þetta er stórfurðulegur endir á einhverjum furðulegasta degi sem um getur í íslenskum stjórnmálum – og þó víðar sé leitað.
Hvaðan kemur sú hugmynd að senda þessa tilkynningu á erlenda fjölmiðla, það er blaðamaður Financial Times sem birtir þetta bréf á Twitter-síðu sinni?
Hví var íslenskum fjölmiðlum ekki gerð grein fyrir þessu í dag, þegar allt sjónarspilið fór í gang?
Sé þetta satt er er „lausnin“ frá því síðdegis í dag augljóslega komin í fullkomið uppnám. Sjálfstæðisflokkurinn á í nægum vandræðum með þetta þótt ekki komi líka í ljós að Sigurður Ingi er bara tímabundinn staðgengill Sigmundar. Eða vissi forysta Sjálfstæðisflokksins þetta kannski?
Við hljótum að heyra viðbrögð við þessu strax í fyrramálið – ef ekki bara í kvöld.
Skýring Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar, hjómar svona í samtali við Ríkisútvarpið:
Sigmundur Davíð hafi lagt það til að Sigurður Ingi taki við forsætisráðherraembættinu í ótilgreindan tíma – það geti þýtt fram að næstu kosningum.
Einmitt.
Skjáskot af Twitterfærslu Richards Milne, blaðamanns Financial Times, þar sem hann greinir frá bréfinu frá Sigurði Má Jónssyni sem er titlaður upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Þar má sjá að bréfið hefur verið sent til fjölmiðla víða um heim.
Það að Sigmundur sé að hætta er ein aðalfréttin víða um heim, eins skrítið og það kann að virðast. Hún trónir efst á síðu CNN. Leiðréttingin á þessu þarf að vera býsna stór ef hún á að ná fram að ganga.