Eitt af því sem hver lepur nú upp eftir öðrum hér á Íslandi og heyrist líka í erlendum stjórnmálum, til að mynda í tengslum við framboð Donalds Trump, hljómar svona.
Það getur verið kostur að stjórnmálamenn séu efnaðir því þá eru minni líkur á því að hægt sé að hafa áhrif á þá… Fjársterkur einstaklingur sem fer í stjórnmál er ekki fjárhagslega háður öðrum. Minni líkur eru á því að hægt sé að hafa áhrif á viðkomandi með styrkjum eða gjöfum.
Þetta er úr leiðara Fréttablaðsins í dag.
Kenningin er semsagt sú að þeir sem eru ríkir eigi að vera sterkari á siðferðissvellinu en aðrir. Þeir sem eru blankir muni eiga erfiðara með siðferðið – þá sé auðveldlega hægt að leiða í freistni.
Þarna er komin réttlæting fyrir auðræði, því sem alþjóðlega heitir oligarkí. Eitt af því sem gleymist reyndar eru stéttarhagsmunir – í Bandaríkjunum þar sem stjórnmálin eru gegnsýrð af peningum virðist ómögulegt að snúa við þeirri þróun að smár hópur auðmanna verði stöðugt ríkari.
Og hér á Íslandi bukta stjórnmálamenn sig og beygja fyrir til dæmis kvótahöfum, þeim sem í raun sitja að mestum auði á Íslandi – nýverandi ríkisstjórn, hvers forystumenn eru ekki „fjárhagslega háðir öðrum“, virðist sérstaklega liðleg í þeirra garð.