Hvergi í veraldarsögunni hafa verið meiri ræðuhöld en hjá kommúnistum.
Þegar Stalín hélt ræður á veldistíma sínum í Sovétríkjunum þorði enginn að hætta að klappa. Áhorfendur stóðu upp á endann og klöppuðu og klöppuðu og þótt auðvitað væri ekkert vit í öðru en að að hætta að klappa, var viðbúið að sá sem fyrstur léti af klappinu yrði sendur beint í Gúlagið eða skotinn.
Þannig að menn klöppuðu þangað til þeir voru að örmagnast.
Fidel Castró kvaldi Kúbúbúa með ræðum. Áheyrendur féllu í ómegin af þreytu eða leiðindum, en enginn þorði að láta sig hverfa. Lengsta ræða Castrós var hátt í átta klukkutímar. Kúbverjum var smalað á útifundi til að hlýða á þessi ósköp.
Castro hefði auðvitað geta sagt það sem hann þurfti að segja á 15 mínútum, hann var aldrei neinn sérstakur heimspekingur og ræðurnar voru mestanpart þrugl, en hann valdi að gera það á átta klukkutímum. Þannig sýndi hann vald sitt yfir fólkinu.
Castro hefði náttúrlega verið hlægilegur með sín útblásnu ræðuhöld, ef hann hefði ekki líka verið einræðisherra og harðstjóri.
Castro, sem verður níræður í sumar, er ekki hrifinn af ræðunum sem Obama Bandaríkjaforseti hélt í Kúbuferð sinni. Hann sagði að þær væru væmnar. En það verður eiginlega að segja eins og er – honum ferst að gagnrýna aðra fyrir ræðumennsku.
Hér er Stalín að halda ræðu, takið eftir því að hann ýtir á þar til gerðan hnapp þegar klappið á að hætta – annars hefði engin þorað að stoppa.
Og hér er örstutt ræða Fidels Castro frá flokksþingi 1994. Þarna er aðeins farið að draga af karlinum, því ræðan er einungis rúmir tveir tímar.