Sjálft höfuðrit kapítalisma og frjáls markaðar, The Economist, skrifar að arður fyrirtækja í Bandaríkjunum sé of mikill. Þetta sé sjúkleikamerki í efnahagslífinu.
Blaðið segir að arður sé vissulega nauðsynlegur í markaðshagkerfi. En sé hann of mikill geti það bent til þess að fyrirtæki séu duglegri við að soga til sín auð fremur en að skapa hann með framtakssemi. Þegar fyrirtækin ráði yfir of miklu af auðnum leiði það til minni eftirspurnar í hagkerfinu.
Ójöfnuður eykst, hlutur launamanna minnkar og neytendur greiða of hátt verð fyrir framleiðsluvörur. Auknar tekjur af fjármagni valda því að þeir sem eiga mikið fyrir eignast meira. Auðurinn leitar til þeirra og þjappast saman.
Economist skrifar að fyrirtækin í Bandaríkjunum þurfi meiri samkeppni, minni samþjöppun og minni gróða.
Er eitthvað þarna sem við getum fært yfir á íslenska hagkerfið? Á sjávarútveginn? Bankana?