fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Söknuður eftir föstudeginum langa

Egill Helgason
Föstudaginn 25. mars 2016 12:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

50044de04b01dSigurveig kona mín er alin upp í Skeifunni, söluturninum þar sem nú er Hamborgarabúllan. Foreldrar hennar ráku staðinn af miklum myndarskap um langt árabil – seldu kaffi og kökur og frægar samlokur.

Skeifan var einn fárra staða sem höfðu leyfi til  vera opnir á föstudaginn langa. Þangað streymdi fólk þennan dag þegar mátti eiginlega ekki neitt – aðallega þeir sem höfðu gleymt að kaupa sígarettur. Og svo fólk sem fann sér ekkert betra að gera eða þoldi illa tilfinninguna að allt væri lokað.

Umferðarmiðstöðin var líka opin – Ummarinn eins og hún heitir í kvæði eftir gamlan vin minn Sigfús Bjartmarsson –  og mig minnir að þetta hafi líka átt við um sjoppu sem var á Geithálsi. Það er þó lengra síðan.

Svona var föstudagurinn langi. Yfirvöld gættu þess stranglega að fólk næði ekki að rjúfa helgidagafriðinn. Þetta hafði þau áhrif á ungt fólk að því fór að leiðast óskaplega. Dagurinn sniglaðist áfram, þyngslin voru mjög mikil.

Það var sagt að ekkert væri í Ríkisútvarpinu nema messur og sinfóníur – en maður var svosem ekkert mikið að tékka á því.

Þetta er auðvitað gerbreytt, það er ekki lengur hætta á því að maður geti ekki fengið samloku eða kaffi einhvers staðar – eða áfengi. Fyrir það var náttúrlega alveg skrúfað á föstudaginn langa nema menn væru búnir að birgja sig upp. En nú er meira að segja hægt að fara í bíó, það hefði verið alveg óhugsandi.

Við getum heldur ekki svelt túristana. Veitingahús út um allan bæ eru opin – og þeir geta þá líklega komist á klósettið líka.

Nú lifir maður í samfélagi þar sem áreiti er alveg linnulaust, í gegnum farsíma, internet, samskiptamiðla. Ef ekki er svarað strax verða menn undrandi og jafnvel reiðir. Sjálfur er maður eiginlega alltaf í vinnunni; það er nú eitt svívirðilegt plott kapítalismans með allri þessari tækni. Við hreyfum okkur varla án þess að það sé skráð einhvers staðar. Við höldum að þetta sé frelsi en kannski er það í raun helsi. Það er alltaf hægt að ná í mann. Við erum öll komin með staðsetningarbúnað.

Það verður líka alltaf erfiðara að kúpla sig burt. Samviskubitið yfir því að vera ekki sífellt að vinna, vera með eða gera eitthvað sem á að skipta máli ágerist stöðugt.

Þess vegna er föstudagurinn langi góður – eða það sem er eftir af honum – ef maður nær að njóta hans. En hér er ég að skrifa á internetið – og sakna föstudagsins langa eins og hann var einu sinni.

(Hérna vantar eiginlega lagið Föstudagurinn langi með hljómsveitinni Unun, en ég finn það hvergi á netinu.)

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?