fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Sigmundur í kröppum dansi

Egill Helgason
Mánudaginn 21. mars 2016 13:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki komist í hann krappari í forsætisráðherratíð sinni. Framsóknarþingmenn slá um hann skjaldborg, það er ljóst að hann hefur mjög góð tök á flokknum. Þeir bregðast við með reiði og hneykslun í samskiptamiðlum og í blaðagreinum. En það er ekki víst að þessi strategía virki vel – það er satt að segja holur hljómur í henni.

Annars er áberandi hversu fáir aðrir eru koma Sigmundi til varnar. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason og Ásmundur Friðriksson, hafa stigið fram og talað um hversu óþægileg staða forsætisráðherrans er.  Þetta eru vissulega þeir tveir sjálfstæðisþingmenn sem dansa hvað síst á flokkslínunni, en það er ekki loku fyrir það skotið að fleiri bætist í hópinn. Það er ljóst að aðrir hugsa sitt.

Líklega myndi Sigmundur standa af sér vantraust í þinginu – líkurnar á að slík tillaga komi fram hafa aukist nokkuð – en stuðningurinn úr Sjálfstæðisflokknum verður varla sérlega eindreginn. Það er samt nokkuð öruggt að Sjálfstæðismenn muni gæta þess að stjórnin falli ekki.

En svo er auðvitað spurning um hvernig slík vantrauststillaga á að líta út, um hvað hún snýst. Helgi Hrafn Gunnarsson, Píratinn sem er hugsanlega áhrifamesti stjórnarandstöðuþingmaðurinn um þessar mundir, veltir þessu upp í viðtali við mbl.is. Hann segir að þetta sé „risavaxið mál“, þingið komi hins vegar ekki saman aftur fyrr en eftir tvær vikur.

Mbl.is hefur þetta eftir Helga Hrafni:

Hann seg­ir mik­il­vægt að halda því til haga að til­laga sem þessi snú­ist ekki aðeins um hvort hún verði lögð fram eða ekki. Hún snú­ist einnig um hvenær hún verður lögð fram og á hvaða for­send­um. Ekki sé nóg að vera bara hneykslaður og reiður held­ur þurfi að út­skýra hvers vegna og á hvaða for­send­um til­lag­an sé lögð fram.

„Svo skipt­ir veru­legu máli, vegna þess að van­traust­stil­laga snýst ekki bara um minni­hlut­ann að tjá reiði sína, að þing­menn meiri­hlut­ans fái að hugsa sinn gang al­menni­lega, það skipt­ir líka máli. Það er ekki bara stjórn­ar­andstaðan og henn­ar einka­mál hvort og hvenær van­trausti er lýst yfir. Þetta er mál þings­ins á móti rík­is­stjórn,“ seg­ir Helgi Hrafn.

Viðkvæði þingmanna Framsóknar er að þetta séu lítilmannlegar árásir sem beinist gegn eiginkonu forsætisráðherra. Þannig lögðu þeir málið upp þegar Framsóknarmenn ákváðu að verða fyrstir til að greina frá því – áður en fjölmiðlar næðu að birta fréttir um það. Og þeir sitja enn fast við sinn keip, slá sinni skjaldborg um Sigmund.

Þrýstingurinn á að hann komi sjálfur fram og standi fyrir máli sínu eykst samt jafnt og þétt – hann getur varla látið Þorstein Sæmundsson, Vigdísi Hauks, Frosta og Jóhannes Þór ein um að svara fyrir þetta. Það er varla boðlegt. En hann getur auðvitað reynt að bíða fram yfir páska í von um að standa af sér hretið.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?