Vinkona mín og samstarfskona, María Helga Guðmundsdóttir, vann gull- og brons á opna sænska meistaramótinu í karate nú um helgina eins og lesa má í þessari frétt.
María er einstök hæfileikamanneskja. Hún er menntuð í jarðfræði- og umhverfisvísindum í Stanford-háskóla í Bandaríkjunum.
En hún vinnur líka fyrir sér sem þýðandi og kom Vesturfaraþáttunum mínum á ensku – undir heitinu Westward Bound.
Ég var fjarskalega ánægður þegar hún sendi mér textana á þáttunum, þetta var svo vel gert hjá henni og málfarið svo lifandi. Og það var hvergi að finna neina villu.
Svo kom að kvæðunum – þau eru ótæpilega notuð í þáttunum. Í sumum tilvikum fundum við ekki enskar þýðingar á kvæðum sem voru ort á íslensku ellegar þær hentuðu ekki.
Þá tók María – sem er 28 ára – sig til og snaraði kvæðunum bara sjálf. Gerði það ótrúlega vel og hratt. Þá var ég orðinn fullur aðdáunar. Við notuðum svo eina af þýðingunum hennar í bæklingnum sem fylgdi með útgáfunni.
Þetta er kvæði sem var flutt í lok þáttarinnar, þegar við vorum komin út að Kyrrahafi, þarna veltir Stephan G. Stephansson fyrir sér þeirri blöndu þjóða –mósaík er það stundum kallað – sem myndar Kanada.
Það var Sigurður Bragason, annar góður samstarfsmaður á RÚV, sem hannaði bæklinginn.