Nú gerast stórir hlutir. Það er náttúrlega býsna athyglisverð frétt að bæjarstjórar Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarness vilji framvegis að bæirnir þeirra heiti Reykjavík– undir heitinu Reykjavík elskar.
Gæti kannski verið fyrsta skrefið að sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Það er svo merkilegt að sjá viðtal við Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar, þar sem hún segir frá því að hönnunarbúðir séu að hverfa úr Miðbænum. Þeim er rutt burt eða þær keyptar burt – af mönnum sem eru með „peningamerki í augunum“.
Í staðinn koma í flestum tilvikum annað hvort lundabúðir eða flíspeysubúðir, veitingahús, barir eða gististaðir.
Það er alveg rétt að bærinn var ekki betri þegar hann var steindauður á löngum tímabilum fyrir túristavæðinguna, en nú er sagt að 2016 verði jafnvel árið þegar Ísland springur undan túrisma. Fjöldi ferðamanna stefnir í að verða fimmföld íbúatala íslensku þjóðarinnar.
Við þurfum að varast einsleitni og standa vörð um það sem gerir Ísland áhugavert. Einsleitnin í arkítektúr er ekki síst áhyggjuefni.
Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson er í viðtali í Fréttablaðinu. Egill er búsettur í Berlín og horfir á Ísland og Reykjavík utanífrá. Um borgina segir hann:
101 held ég að sé eitt verðmætasta svæði í höfuðborginni. Þessi gömlu, fjöllita hús gera borgina okkar svo ótrúlega áhugaverða. Ég myndi ekki vilja skipta þeim út fyrir 25 Hótel Borgar-byggingar, eins og forsætisráðherra hefur verið að leggja til. Slíkar byggingar er hægt að finna í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, í þýskum borgum og raunar alls staðar í kringum okkar. Til hvers að apa eftir það sem finnst þar? Ég hef reyndar mjög sérstaka afstöðu í þessum málum, en ég vil ný hús með miklu fjölbreyttara yfirborði. Byggingar 20. aldarinnar eru alltof flatar og það er ómanneskjulegt. Stór hluti heilans er til að greina umhverfi – stór hluti heilans greinir andlit á fólki og stærsti hlutinn greinir hvað er að gerast í augunum – það sama á að gerast þegar þú stendur fyrir framan byggingu. Ef húsið er bara flatt, þá er það ekkert spennandi. Þá verður þú bara flatur og óspennandi líka. Ég vil hvetja arkitekta 21. aldarinnar til að gera áhugaverðari yfirborð á húsum. Það er nefnilega ekki bara eigandi hússins sem á að njóta þess, heldur allir sem horfa á það.
Egill segir að einfalt yfirborð húsa, metnaðarlausar byggingar, séu eins og vírus sem þurfi að losna við. Það sér eins og arkitektar hafi lært að hatast við skraut. En náttúran sé full af skrauti og fólk þarfnist skrauts:
Allir þeir sem ganga fram hjá húsunum þurfa að njóta þeirra líka. Byggingarreglugerðir snúast um hvað hús eru há og mörg en það vantar nefnd sem verndar hagsmuni þeirra sem ganga um göturnar og eiga rétt á að umgangast byggingar sem gerðar eru af meiri hugsjón en nú er gert. Borg er það leiksvið þar sem leikritið „líf okkar“ fer fram. og leiksviðið er mikilvægur hluti af áhugaverðu leikriti. Það þekkja allir. Einfalt yfirborð húsa og bygginga er alltof ráðandi. Það er orðið eins og einhver vírus sem þarf að hörfa. Það þarf meira af byggingum með spennandi yfirborð – að fara fram á metnaðarfullar byggingar. Og því er gott að ráðherra blandi sér í málið, skraut er orð sem arkitektar lærðu að hata. En ef skraut væri óþarfi þá væru allir fuglar jarðarinnar gráir og án litbrigða. Yfirborð hluta, litur og smáatriði, hlutföll og línur fela í sér mikið af upplýsingum sem geta verið mikilvægar fyrir sálarlíf borgarbúa og gesti þeirra.
Veggspjald vegna opnunar á einni sýningu Egils Sæbjörnssonar í Þýskalandi.