Þetta er dálítið dambsamt viðhorf hjá formanni Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann er tilbúinn að ræða gjaldtöku af ferðamennsku, ef hún rennur til uppbyggingar greinarinnar. En kannski er maður að dæma þetta of hart. Því er þó ekki að leyna að komin er ákveðin ferðamannaþreyta í Íslendinga og mörgum ofbýður seinagangurinn og tregðan við að gera úrbætur á ferðamannastöðum.
Í raun er það þannig að Samtök ferðaþjónustunnar eiga ekki að ráða sérlega miklu um þessa gjaldtöku, ferðaþjónustan hefur komist alltof lengi upp með að sporna við henni. Það er stjórnvalda að leggja gjöld eða skatta á ferðamennsku eftir hentugleikum. Og það mætti jafnvel hugsa sér að þau gjöld renni til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins eða byggingar spítala. Eflingar í umönnun aldraðra og fatlaðra.
Samtökin geta auðvitað haft skoðun á þessu máli, rétt eins og þau geta haft skoðun á gengi íslensku krónunnar. Maður sér reyndar ekki betur en að formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sé að ámálga gengisfellingu. Honum þykir krónan vera orðin of sterk.
Það er spurning hvort íslenskur almenningur með sinn kaupmátt er sammála?
Reyndar er það svo að liggur við að þurfi að koma á einhvers konar aðgangstakmörkunu að Íslandi. Það eru áhöld um að við getum ráðið við allan þann fjölda sem er væntanlegur hingað. Kannski verður þetta þegar of mikið næsta sumar? Aðgangstakmarkanirnar geta auðvitað falist í háu krónugengi – en auðvitað geta þær líka birst í því ef fréttist víða um okur og græðgisvæðingu sem á vinsælum ferðamannastöðum.
Því miður hefur það viðhorf verið alltof útbreitt innan ferðaþjónustunnar að aðrir eigi að borga brúsann – helst íslenskir skattgreiðendur. Þannig hefur andstaðan við gjaldtöku á ferðamenn birst almenningi – líkt og fyrirtækin í ferðaþjónustunni vilji bara fleyta rjómann. Því má kannski, með góðum vilja, fagna viðhorfi Samtaka ferðaþjónustunnar. Það heyrast að minnsta kosti ekki sömu harmkvælahljóðin og hér um árið þegar rætt var um gistináttaskatt.
Benda má á prýðilega grein þar sem er fjallað um ferðaþjónustuna og þá auðlind sem er náttúra landsins og nýting hennar. Greinin er eftir Gylfa Zoëga, prófessor í hagfræði, og birtist í tímaritinu Vísbendingu. Þar leggur Gylfi til komugjöld, semsagt skattlagningu á ferðaþjónustuna. Tilgangurinn er tvíþættur, líkt og hann skýrir út, að afla tekna til að styrkja undirstöður greinarinnar og til að bjarga henni frá ofnýtingu.
Í ferðaþjónustu selja fyrirtæki aðgang að þessari náttúru án þess að greiða fyrir hana. Náttúra landsins er meðal aðfanga í starfsemi ferðaþjónustu sem fyrirtæki greiða ekki fyrir, alveg eins og lánstraust ríkisins í fjármálaþjónustu og fiskimiðin í óheftum veiðum. Ytri áhrif verða til þegar ferðamenn á vegum eins fyrirtækis þrengja að ferðamönnum á vegum annarra fyrirtækja; skemma náttúruna með því að ganga utan göngustíga eða gera þarfir sínar á víðavangi sem nú er að verða mjög algengt. Ytri áhrif koma einnig við sögu þegar slys verða á ferðamönnum, þá skaðast orðspor alls landsins sem ferðamannastaðar. Fleiri dæmi mætti telja. Þeir sem verðleggja hátt þjónustu sína geta hagnast en fæla um leið ferðamenn frá landinu. Jafnframt verða Íslendingar fyrir ónæði vegna aukinnar umferðar um vegi og slysahætta eykst.
Gylfi segir að ef ferðaþjónustan eigi að dafna þurfi ríkisvaldið að grípa til aðgerða sem vernda náttúruna og þá upplifum sem ferðamenn njóta í strjálbýlu landi. Verði það ekki gert sé hætta á að náttúran verði grátt leikin, slysum og dauðsföllum muni fjölga, ferðaþjónustan muni ekki þrífast til lengri tíma litið.
Gylfi leggur til að lagt verði komugjald á alla ferðamenn sem koma til Íslands. Hann metur það svo að tekjur af 3000 króna komugjaldi hefðu á síðasta ári numið rúmum 5 milljörðum króna. En hann hefur áhyggjur af „þetta reddast“ hugarfari í ferðaþjónustunni:
Eins og í bankaævintýrinu þá virðist ferðaþjónusta einkennast af viðleitni til þess að hagnast til skamms tíma, græðgi í þeim skilningi að hagnaði er undir engum kringumstæðum fórnað fyrir umgjörð, eftirlit, ráðdeild og öryggi.
Gylfi veltir fyrir sér hvers vegna þetta sé. Hann spyr hvort ein ástæðan sé oftrú á markaðshagkerfi, hvort framtaksleysi sé um að kenna eða hvort skýringin kunni að vera náin tengsl stjórnvalda og ráðandi fyrirtækja, og minnir á hvernig slíkum samskiptum var háttað milli stjórnmálanna og fjármálafyrirtækja á árunum fyrir hrun:
Því hlýtur sú spurning að vakna hvort stórfyrirtækið á sviði ferðaþjónustu, Icelandair, sé búið að taka við hlutverki Kaupþings og stjórnmálamenn skilji ekki að hagsmunir fyrirtækisins fara ekki að öllu leyti saman við hagsmuni þjóðarinnar. Þegar Icelandair auglýsir landið eins og það sé hættulaust, eins konar Disneyland norðursins; elskendur á Reynisfjöru, ísjakar sem freistandi er að hoppa á milli á Jökulsárlóni, án þess að vara nægilega við hættunum þá þurfa stjórnvöld að bregðast við. Þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu neita að leggja á komugjald þá þarf engu að síður að setja lög um slíkt. Og ef ferðamönnum fækkar fyrir vikið, þá er það ekki alslæmt.
Grein Gylfa Zoëga í Vísbendingu lýkur með svofelldum orðum:
Markaðshagkerfi þrífst best þar sem ríkisvald er sterkt; lög og reglur skýrar, dómsstólar óháðir og markaðinum ákvarðað skýrt hlutverk. Eftirlit er nauðsynlegt þegar neytendur geta ekki fengið upplýsingar um gæði vöru og þjónustu – t.d. matvælaeftirlit, eftirlit með fjármálafyrirtækjum, eftirlit með viðhaldi flugvéla, bifreiðaskoðun o.s.frv. – vegna þess að hagsmunir fyrirtækja og almennings fara ekki alltaf saman.
Íslendingar hafa verið heppnir í kjölfar hrunsins árið 2008 sem stafaði að verulegu leyti af skorti á skýrum reglum, eftirliti og ríkisvaldi sem skildi að hagsmunir færu ekki alltaf saman. Síðustu árin hafa fyrst makrílveiðar og síðan ferðaþjónusta bætt lífskjör til muna. Hrun ferðaþjónustu mundi valda því að gengi krónunnar félli, verðlag hækkaði og kaupmáttur lækkaði og höfuðstóll verðtryggðra lána stökkbreyttist. Bankar yrðu fyrir tjóni á lánabók sinni.
Nú virðist sem ríkisstjórnin sé um þessar mundir að hugleiða að veita fjármagni til þess að auka öryggi ferðamanna. En hér hafa verið leidd rök að því að hagkvæmt og réttlátt væri að leggja skatt á ferðaþjónustu til þess að afla mun meira fjármagns til þess að styrkja undirstöður greinarinnar þannig að hún nái að dafna til lengri tíma. Mikilvægt er að bjarga henni á þennan hátt frá ofnýtingu á svipaðan hátt og Íslendingar hafa bjargað fiskistofnum sínum á liðnum áratugum.