Lélegt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna er með ólíkindum. Flokkar sem samanlagt fengu 52 prósenta fylgi í þingkosningunum 2009 slefast ekki einu sinni upp í 16 prósent í nýrri skoðanakönnun.
Það sem er líka svo skrítið er hversu værukærir flokkarnir eru. Þeir virka í raun eins og litlir klúbbar sem geta verið huggulegir fyrir meðlimi en hafa annars enga skírskotun og vekja engan áhuga. Þingmenn flokkanna virðast vera ánægðir meðan þeir fá að lafa inni á löggjafasamkomunni – metnaðurinn virkar ekki meiri en svo. Maður sér ekki að mikið sé gert til að ná til almennra kjósenda.
Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, hefur nýskeð gefið frá sér forsetaframboð. Þar mældist hún langhæst allra hugsanlegra frambjóðenda. En sem formaður í stjórnmálaflokki skorar hún ekki neitt. Prívatvinsældir hennar þoka fylginu ekkert upp.
Í Samfylkingunni stendur til að kjósa formann. Það eru áhöld um hvort Árni Páll Árnason gefur kost á sér aftur. Hann verður þá væntanlega felldur í kosningu. En það lofar ekki góðu fyrir flokkinn að þeir sem hafa gefið kost á sér í formannsembættið koma úr innsta kjarna flokksins, sitja eða hafa setið á þingi fyrir hann. Samfylkingin þarfnast nýs blóðs en þeir sem eru á fleti fyrir kæra sig ekki um neitt slíkt. Þeir vilja bara verja stöðu sína, eins léleg og hún kann að vera.
Í raun er ekki neitt vit í öðru fyrir Samfylkinguna en að leita formannsins utan innsta hrings. Þar mætti jafnvel nefna fordæmið frá því Framsóknarflokkurinn kallaði á Sigmund Davíð Gunnlaugsson til forystu, svínvirkaði allavega þar.
Athyglisvert er hvað Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar um vinstri flokkana á Facebook:
Ég er sósíalisti. Ef ég væri Bandaríkjamaður þá mundi ég kjósa Bernie Sanders. Ég mundi ganga um með barmmerki og hiklaust setja Feel the Bern límmiða á bílinn minn. Frá unga aldri hef ég fylgst með vinstri hreyfingunni á Íslandi þróast hægt og rólega úr því að vera alþýðleg verkamannahreyfing í einhverja akademíska elítu sem allt þykist vita og kunna en virðist aldrei ætla að fatta hvað hún er ótrúlega leiðinleg. Hún tekur sig svo alvarlega að hún getur ekki verið fyndin. Og hún þorir ekki að sýna hugrekki því það samræmist ekki akademískum gildum hennar þar sem allir sem eru hugrakkir eru hugsanlega heimskingjar.
Jón Gnarr: „Frá unga aldri hef ég fylgst með vinstri hreyfingunni á Íslandi þróast hægt og rólega úr því að vera alþýðleg verkamannahreyfing í einhverja akademíska elítu sem allt þykist vita og kunna en virðist aldrei ætla að fatta hvað hún er ótrúlega leiðinleg.“