fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Mistakasaga íslenska vinstrisins

Egill Helgason
Mánudaginn 14. mars 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Screen Shot 2016-03-14 at 23.03.40Viðar Þorsteinsson, doktorsnemi í menningarfræðum í Ohio, skrifar afar skarpa grein um íslenska efnahagshrunið og vinstri hreyfinguna á vef sem nefnist Jacobin. Greinin er á ensku, það þyrfti í raun að þýða hana á íslensku –því hún ætti að nýtast vel í greiningu á stöðu vinstri flokka á Íslandi. Í henni eru fjölmörg atriði sem verðskulda umræðu, á tíma þegar vinstrið á Íslandi er í meiri lægð en líklega fyrr og síðar.

Viðar hefur greinina á að rekja nokkrar goðsagnir um hrunið: Að Íslendingar hafi sett bankamenn í fangelsi, að þeir hafi sameinast um að búa til nýja stjórnarskrá, að þeir hafi neitað að bjarga bönkum, að þeir hafi haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um skuldir. Þetta sé rétt svo langt sem það nær, en Viðar segir að viðbrögðin við bankahruninu hafi ekki markað neina hreyfingu til vinstri. Sundurlyndið hafi líka verið miklu meira en megi lesa í erlendum fjölmiðlum.

Viðar segir að íslenska vinstrið geti að hluta til kennt sér um sjálft, því hafi láðst að gera skuldir húsnæðiseigenda og námsmanna að sínu máli og því hafi tækifærisinnaðir flokkar getað eignað sér skuldamálin. Vinstri grænir, róttækasti flokkurinn á vinstri væng, hafi unnið stórsigur í kosningum 2009 en ekki tekist að móta neina sannfærandi stefnu varðandi skuldirnar.

Það hafi valdið flokknum enn meiri skaða þegar forysta flokksins vildi ekki taka þátt í almennri og mjög heitri andstöðu við hina alræmdu Icesave-samninga, heldur hafi flokkurinn, á „harmrænan“ hátt orðið nátengdari þessum samningum en nokkurt annað stjórnmálaafl í landinu.

Grein Viðars er nokkuð löng, þar er rakin lauslega saga vinstri hreyfingarinnar á Íslandi, yfirburðastaða Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum, aðdragandi hrunsins, einkavæðing fjármálakerfisins, ofvöxtur fjármálakerfisins. Viðar nefnir að á þeim tíma hafi vinstið í raun haft fremur jákvætt viðhorf til uppgangs fjármálastarfsemi, bankamennirnir virkuðu á vissan hátt eins og þeir væru framfrarasinnaðir – aðalbaráttan í stjórnmálunum snerist um umhverfis- og orkumál.

Hrunið hafi komið flestum að óvörum, enda hafi stjórnvöld á kerfisbundinn hátt falið veikleikana í fjármálakerfinu. Svikin sem þar voru á ferð hafi verið svo stórfelld og fáránleg að fá dæmi séu um annað eins. Reiðin var mikil. Í kringum Austurvöll spratt upp mótmælahreyfing. Markmiðin voru hins vegar óljós, sumir vildu ganga í ESB, aðrir vildu ríkisstjórn sem væri eingöngu skipuð konum. Það sem helst sameinaði, segir Viðar, var hatur á Davíð Oddssyni.

Kröfurnar á Austurvelli, eins og þær voru mótaðar af Herði Torfasyni, voru einfaldar, ristu í raun ekki djúpt. Ríkisstjórnin skyldi segja af sér, seðlabankastjórarnir og stjórn fjármálaeftirlitsins og boða ætti til nýrra kosninga. Þetta var í nokkurri andstöðu við stórar og jafnvel útópískar stjórnmálahugmyndir sem mátti finna víða um land á þessum tíma.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá í janúar 2009. Í maí voru kosningar þar sem vinstri flokkarnir á Íslandi náðu hreinum meirihluta í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Það var stórviðburður í sjálfu sér. Umboð stjórnarinnar var sterkt. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon einhentu sér í að skera niður í ríkisrekstrinum samkvæmt boði Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og endurreisa fjármálakerfið.

Viðar tekur sérstaklega fram að Steingrímur hafi einblínt á að endurreisa bankakerfið fremur en að endurskipuleggja það – þar hafi hann unnið með „varðhundum alþjóða fjármagnsins“. Um leið hafi hann látið eftir sósíaldemókrötunum í Samfykingunni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta hafi virkað mjög sundrandi, bæði meðal þjóðarinnar sjálfar og innan flokks hans. Á móti hafi Vinstri grænir fengið smá eftirgjöf, skattahækkanir á auðmenn og dálítinn afslátt á niðurskurði í velferðarkerfinu.

Báðir flokkarnir hafi verið mjög hikandi við að bendla sig of mikið við reiðina sem beindist gegn bankamönnum og boðberum nýfrjálshyggju. Í stað þess að nota þetta andrúmsloft til að hverfa frá stefnunni sem ríkti fyrir hrun, varð það markmið Steingríms að blása aftur lífi í það efnahagskerfi nýfrjálshyggju sem hrunið hafði nánast gengið af dauðu. Steingrímur hafi verið þekktur fyrir eldlega mælsku, hún hafi fjótt snúist upp í fýlulega andúð á fjölmiðlum og þeim sem gagnrýndu hann.

Forysta Vinstri grænna hafi aldrei dregið í efa guðspjall aðhaldsstefnu og niðurskurðar, heldur hafi hún ætlað flokknum að taka að sér verk sem forystan taldi sársaukafullt en ójákvæmilegt. Það var með einhvers konar stolti að Vinstri grænir tóku yfir tap sem einkaaðilar höfðu stofnað til, líkt og kjósendur myndu viljandi undirgangast harðræði fyrir að hafa sjálfir tekið þátt í efnahagsbólunni og fyrir að hafa ekki haft vit á að kjósa Vinstri græna.

Þessi nálgun leiddi fljótlega til óánægju innan flokksins og til þess að nýjir stuðningsmenn létu sig hverfa.

Í Icesavemálinu hafi hópurinn í kringum Steingrím, Samfylkingin og hluti Sjálfstæðisflokksins komist á þá skoðun að ekkert þýddi nema að laga sig algjörlega að skilmálum Breta. Hollendinga og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Annars væri alþjóðlegt orðspor Íslendinga í hættu og staða landsins meðal vestrænna þjóða. Þetta hafi átt mikill hjómgrunn í því sem Viðar kallar vinstri/frjálslynda greiningin, en samkvæmt henni átti landlæg spilling og vanhæfni aðalsök á hruninu. Sósíaldemókratar hafi á bernskan hátt ímyndað sér að Ísland þyrfti að undirgangast stefnu Evrópusambandsins sem þeir ímynduðu sér að væri bæði siðleg og ábyrg.

Með þessu hafi farið að líta á Icesave skuldirnar sem einhvers konar réttlætanlegar stríðsskaðabætur. Þetta hafi birst greinilega í orðum Svavars Gestssonar, samningamanns í Icesave málinu: „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist.“

Í greininni fjallar Viðar Þorsteinsson líka um stjórnarskrármálið og hvernig vinstri stjórnin setti í gang endurskoðun á stjórnarskránni með því að fá sjálfa þjóðina að verkinu. Þetta hafi lofað góðu, þarna hafi verið á ferðinni áhugaverð tilraun í beinu lýðræði. Ferlið hafi hins vegar beðið skaða þegar Hæstiréttur dæmdi kosningu til stjórnlagaráðs ólöglega, síðan hafi Alþingi gefist upp á því, stuðningurinn í þinginu sé núorðið hverfandi.

Í samningu stjórnarskrárinnar hafi verið ýmsir möguleikar, en það sé hins vegar áberandi hversu almenningur hafi brugðist lítt við því þegar Alþingi kyrkti stjórnarskrárferlið. Í raun hafi ekki orðið vart við útbreidda reiði vegna þessa. Það veki spurningar um hvort sé vit í að gera stjórnarskrármál að miðlægum þætti í vinstri stjórnmálum.

Það sé líka áleitin spurning hvort yfirleitt megi leita einhverra skýringa á hruninu í stjórnarskránni – hvers vegna menn hafi talið svo brýnt að breyta henni á þessum tímapunkti? Ekki verði samt horft framhjá því að þessi áhugi á stjórnkerfisbreytingum eigi ákveðinn þátt í uppgangi Pírataflokksins.

Viðar Þorsteinsson nefnir líka landsdómsmálið sem að hans mati var algjörlega misheppnað. Það hafi borið öll merki pólitískra hrossakaupa og á endanum hafi það virkað eins og sýndarréttarhöld yfir Geir Haarde.

Viðar fjallar svo líka um rannsókn á efnahagsbrotum í kringum hrunið. Sumir glæpirnir hafi verið furðulega bíræfnir, eins og hin meintu kaup Qatarbúans Al-Thanis í Kaupþingi. Almennt sé ekki hægt að draga miklar ályktanir af þessu um refsingar vegna hvítflibbabrota – afbrotin séu svo absúrd.

Þannig segir Viðar Þorsteinsson að raunverulegar umbætur á Íslandi eftir hrunið hafi verið mjög takmarkaðar, enda hafi markmiðið alltaf verið að fá hjólin til að snúast aftur. Breytingar á kvótakerfinu hafi mistekist algjörlega, þær hafi koðnað niður í tilraunum sjávarútvegsráðherra Vinstri grænna til að fá samþykki kvótaeigendanna sjálfra.

Grein Viðars er ítarleg og þar er farið mun nákvæmar í skuldamálin og Icesave og hvernig þessi stóru mál sköðuðu ríkisstjórnina og stuðluðu að herfilegum kosningaósigri hennar 2013. Vinstri stjórnin hafi verið auðveld bráð fyrir andstæðingana sem gátu hamrað á því hvernig hún hefði brugðist sínum eigin kjósendum. Það sem meira er, vinstri flokkarnir séu ekkert farnir að rétta úr kútnum aftur. Viðar segir að andinn frá mótmælunum eftir hrunið hafi fyrst og fremst lifað með þrennum hætti:  Í Besta flokki Jóns Gnarrs, í InDefence hreyfingunni og í Pírataflokknum.

Vinstri valkosturinn hafi hins vegar tapast, ólíkt því sem margir virðast halda út í hinum stóra heimi.

Hér má lesa grein Viðars Þorsteinssonar í heild sinni. Hún er eiginlega skyldulesning.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Guðlaugur gerir grín að því hvað Miðflokksmenn séu gleymnir – Sigmundur gagnrýni nú í raun sín eigin verk

Guðlaugur gerir grín að því hvað Miðflokksmenn séu gleymnir – Sigmundur gagnrýni nú í raun sín eigin verk
Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?