George Martin, sem er látinn, 90 ára gamall, var fyrst og fremst upptökustjóri á grínplötum þegar Bítlarnir voru kynntir fyrir honum 1962. Hann vann með gamanleikurum eins og Peter Sellers og Spike Milligan. En hann var menntaður í klassískri tónlist, hafði numið píanó- og óbóleik við Guildhall School of Music eftir að þjónustu hans í stríðinu lauk.
Martin var upptökustjóri á öllum plötum Bítlanna: Jú, Hard Day’s Night, Rubber Soul, Sgt. Pepper (það er reyndar spurning með Let it Be-pötuna). Hann var kannski enginn fimmti bítill, en hann hjálpaði þessum ótrúlega hæfileikaríku ungu mönnum að koma hugmyndum sínum í viðunnandi horf. Eftir að Bítlarnir hættu varð hann einn helsti gæslumaður hinnar miklu arfleifðar þeirra og fórst það vel úr hendi. Í viðtölum um tónlist Bítlanna var hann alltaf frábærlega skilmerkilegur.
Hann fékkst auðvitað við ýmislegt annað, og ég ætla að fara út í lítið horn á ferli hans, bandaríska hljómsveit sem nefndist America en átti reyndar uppruna sinn í Bretlandi. Hjá mér var hún það sem kallast guilty pleasure. Lög eru afar melódísk, laglínurnar festast fljótt í vitundina, söngurinn er fallega raddaður. Þegar America byrjaði var sveitinni líkt við Crosby, Stills & Nash, en seinna þróaðist tónsköpun þeirra meira út í hina nokkuð fyrirlitnu grein soft rock. George Martin var upptökustjóri hjá America á nokkrum vinsælustu plötum sveitarinnar, meðal annars í laginu sem er hér að neðan.
Sonur minn komst í þessi lög um daginn og þá rifjuðust þau upp fyrir mér. En þetta var sannarlega ekki hátt skrifað hjá tónlistarspekúlöntum þegar ég var á hans aldri, hvorki á tíma proggs né pönks. Það liggur við að menn hafi vorkennt fólki sem hlustaði á America, eða mig minnir að svo hafi verið á menntaskólaárum mínum þegar sveitin raðaði hverju laginu á fætur öðru á vinsældalista.