Eitt af því sem sem er sérstætt við íslenskar forsetakosningar er að frambjóðandinn stendur í raun einn. Hann býður fram sjálfan sig. Hann er ekki fulltrúi hreyfingar eða stjórnmálastefnu.
Þetta getur verið dálítið óþægileg staða. Frambjóðendurnir eru vegnir og metnir sem einstaklingar fyrst og fremst – og hampað eða hafnað sem slíkum. Fyrir vikið geta sárindin orðið afar mikil.
Þetta getur reynt á ýmsa hluti, til dæmis vina- og fjölskyldubönd. Frambjóðandinn þarf máski að upplifa að vinir, ættingjar eða samstarfsmenn styðja hann ekki, eru jafnvel andsnúnir honum. Slíkt reynir ekki svo mikið á þegar fólk býður sig fram fyrir stjórnmálaflokk, en það er annað þegar persónulega návígið er svo mikið.
Þetta er jafnvel ennþá erfiðara nú á tíma samskiptamiðla. Frambjóðendur eru vegnir og léttvægir fundnir á einum dagparti. Jafnvel slátrað undir eins og þeir stinga höfðinu út og leyfa að þeir séu orðaðir við framboð.
Hvernig á fólk að fara að því að bjóða sig fram? Svanur Kristjánsson prófessor segir að peningar skipti ekki svo miklu máli í forsetaframboði. Hann fjallar um fjárútlát Ástþórs Magnússonar í kosningunum 1996 samanborið við peningana sem Ólafur Ragnar Grímsson eyddi.
En þetta er náttúrlega ekki sambærilegt. Ástþór átti aldrei möguleika. Hann var að eyða peningum til að vekja athygli á sjálfum sér og friðarstarfinu sem hann stóð fyrir á þeim tíma.
Ólafur Ragnar varð hins vegar forseti og greinir Svanur frá því að hann hafi eytt 36 milljónum króna í framboð sitt, það eru 74 milljónir samkvæmt verðlagi dagsins í dag. Ólafur – eða framboð hans – var lengi að borga skuldirnar.
Í raun er þetta hrikalega mikið. Þarf forsetaframbjóðandi í dag að eyða svona miklum peningum – og hvaðan ætti hann að fá slíkar fjárhæðir? Myndi viðkomandi ekki steypa sér í stórkoslegar skuldir?
Svanur Kristjánsson segir að framboð Ólafs Ragnars Grímssonar hafi kostað 36 milljónir króna 1996. Framreiknað eru það 74 milljónir króna. Væri einhver tilbúinn að eyða slíkum fjárhæðum í að verða forseti?