Lesandi síðunnar sendi þetta bréf:
Þessa dagana berast fregnir af hagnaði bankanna, og sitt sýnist hverjum. Til að sjá þetta í samhengi er ágætt að bera saman við banka í öðru landi.
Fyrst skal reynt að fá mynd af því hver hagnaður banka var hér afreglulegri starfsemi. Hagnaður bankanna af reglulegri starfsemi var 16,8 milljarðar hjá Arion og 16,2 milljarðar hjá Íslandsbanka. Landsbankinn gefur ekki upp hagnað af reglulegri starfsemi. Heildahagnaður LÍ var 36,5 milljarðar eftir skatta, en t.d. „Hreinar virðisbreytingar útlána skila tekjufærslu upp á 18 milljarða króna í uppgjörinu, fyrir skatta.“ Hver er sú tala eftir skatta? Það er kannski hægt að sirka á að hagnaður af reglulegri starfsemi sé kringum það sama og hjá hinum? Það er skrýtið að þurfa að slá á hagnað Landsbankans, en bankinn kýs að birta ekki þessa tölu skýrt, eins og hinir bankarnir gera.
Allavega, þetta þýðir að hagnaður af reglulegri starfsemi hjá þessum þremur er líklega kringum 48 milljarðar, svo með hinum litlu bönkunum, kannski 50 milljarðar? Hárnákvæm tala skiptir raunar ekki máli í þessum samanburði, munurinn á hlutföllum er svo svakalegur, en hvað segir þessi tala? Kringum 50 milljarðar króna eru um 2,5% af vergri landsframleiðslu (VLF), en hagnaður bankanna alls með öllum breytingum á virði eignasafns og slíkra þátta var 106,8
milljarðar kr. eða um 5% af VLF.Hér kemur svo samanburðurinn: Hagnaður bandaríska fjármálakerfisins (US banking sector) skv. Wall Street Journal var 152,7 milljarðar USD árið 2014 sem er um 0,85% af vergri landsframleiðslu í USA (sem var tæpir 18.000 milljarðar USD það ár). Hagnaður fjármálakerfisins virðist því vera 0,85% af VLF í USA, en 2,5 eða 5% af VLF hér? Ef bankar á Íslandi væru að hagnast sem svarar til 0,85% af VLF, þá væri hagnaður allra bankanna samanlagt 17 milljarðar, ekki 50 eða 106,8 milljarðar.
Það er þægilegt að græða. Ætli bankastjórum þætti það gott mál ef hagnaður þeirra væri þetta miklu lægri?
Hluti af tekjum bandaríska bankakerfisins kemur gegnum þjónustu við alþjóðlega viðskiptavini. Lítill hluti tekna íslensks bankakerfis kemur þessa stundina frá þjónustu við alþjóðlega viðskiptavini sem kunnugt er. En bankar hér finna sér matarholur innanlands. Hagnaður íslenskra banka virðist vera um þrisvar til sex sinnum meiri en banka í USA, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þeirra landa.
Ástæða fyrir þessu betra gengi íslenskra banka, hlutfallslega af vergri landsframleiðslu landanna, er ekki sú að íslenskir bankamenn séu svona margfalt snjallari rekstrarmenn en bandarískir bankamenn. Ástæðan er einfaldlega sú að íslenskir bankar eru sameiginlega í aðstöðu til að raka að sér mun hærri tekjum en sem nemur gjöldum, og þeir gera það hraustlega.
Einhver myndi segja að þeir kunni sér ekki hóf, en það er það er kannski rangt á meðan þeir komast upp með það. Menn ganga eins langt og þeir geta. Hvað þarf að gera til að íslenskt atvinnulíf og heimili búi við það að hlutur bankanna í vergri landsframleiðslu, þ.e. hagnaður þeirra, sé skaplegri, í alþjóðlegum samanburði?