Það hlakkar í ýmsum, sem eru uggandi yfir framrás Pírata, að sjá innanflokksátök á þeim bæ.
Og víst er að skeytin fljúga. Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar til dæmis á Pírataspjallið í gær. Hann er býsna harðorður um Birgittu Jónsdóttur og segir að sér hafi þótt skjóta skökku við að persóna í valdastöðu „setji sig í fórnarlambsstellingar eftir að hafa rægt aðra“:
Ástæðan fyrir þessum orðum er ákveðið atvik sem átti sér stað í sambandi við ungan herramann sem heitir Ólafur Evert Úlfsson. Téður Ólafur kom til okkar frá Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og að fjölmargir okkar meðlima koma úr einhverjum öðrum flokkum. Einn daginn rakst Birgitta á umræðu á frjálshyggjuvettvangi einhverjum á Facebook, brást hin versta við og tilkynnti framboð sitt til þess að reyna að hindra að frjálshyggjumenn og Ólafur Evert tækju yfir Pírata. Það er fleira í þessari sögu en ég get farið yfir hérna, en alla tíð síðan þetta gerðist, hefur kraumað í mér bitur reiði yfir því hvernig Birgitta talaði um Ólaf Evert opinberlega í gríðarlegum aðstöðumun.
Helgi talar líka um ótta við að ræða málin opinskátt, ótta við að afleiðingarnar verði hræðilegar:
Þegar mig hefur langað að ræða þetta hef ég fundið þennan ótta, sem ég kannast við úr ofbeldissambandi, að geta ekki talað um það sem mér liggur á hjarta af ótta við að afleiðingarnar verði hreint út sagt hræðilegar. Ég er haldinn þessum ótta núna en mér finnst við verða að tala um þetta. Hvernig við tölum um hvort annað er ekki í lagi og við verðum að finna einhverja leið til þess að takast á við samskiptavandamál af þessum toga.
Umræða í þessum dúr geisar á Pírataspjallinu. En kannski er ekki víst að hún skaði Píratana að marki – það er altént ekki einboðið.
Þarna er reynt að ræða innanflokksvandamál fyrir opnum tjöldum, á internetinu, í augsýn allra sem vilja fylgjast með. Enn er þetta í anda þeirrar meginhugmyndar Pírata að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Reyndar gegnsýrir allar umræður á vefnum beygur gagnvart hefðbundnum valdakerfum. Helgi veltir fyrir sér hvort Píratar þurfi að taka upp einhvers konar formannsstöðu, en tekur fram:
Til þess að fyrirbyggja áhyggjur um að ég stingi upp á þessu til að skapa sjálfum mér einhverja stöðu, þá vil ég taka fram að ef Píratar ákveða á einhverjum tímapunkti að taka upp formannsstöðu, þá mun ég ekki bjóða mig fram í það embætti.
En vald er viðbjóður og við förum stundum illa með það, og við verðum að hafa einhverja virka ferla til að díla við það. Við getum ekki látið eins og að við séum valdalaus því við erum það ekki. Við höfum helling af valdi og það er eins gott að það séu til skýrir formlegir ferlar til þess að hafa hemil á því, því að annars fer eins og nú hefur farið.
Smári McCarthy, sem hefur verið einn helsti hugmyndafræðingur Píratahreyfingarinnar, segist vera alveg á móti því að Píratar hafi formann í anda hefðbundinna stjórnmála. Hann vill „ríghalda í flatan strúktúr“ eins og hann kallar það. En hann leggur til að Píratar taki upp embætti „stýrimanns“:
1. Píratar stofni til og samþykki stefnu sem býr til formlegt embætti (sem ætti kannski að heita stýrimaður?), sem er kosinn með Condorcet skilyrðum og hefur þann tilgang að geta stofnað til ríkisstjórnar — og hafi þann eiginleika að það vald sé afturkallanlegt með einföldum meirihluta atkvæða hvenær sem er.
2. Píratar setji reglur sem takmarka umboð stýrimanns verulega, sér í lagi varðandi skipulag og skipan ríkisstjórnar, komi það til, og skapi skynsamar verklagsreglur í kringum það hvað stýrimaður má og má ekki gera.
3. Að hver sé stýrimaður sé ákveðið með góðum fyrirvara, en hlutverk stýrimanns sé nákvæmlega ekki neitt nema í ákveðnum kringumstæðum sem gætu komið upp — sambærilegt við úrskurðarnefnd, þannig.
Þannig ræða Píratar málin. Mörður Ingólfsson sem hefur starfað innan hreyfingarinnar frá upphafi segist vera hræddur við þessar hugmyndir. Það sé óhjákvæmilegt að vissir meðlimir hreyfingarinnar öðlist áhrifavald vegna stöðu sinnar, en hann vilji helst ekki formgera þau völd:
Það er svo gífurleg hætta fólgin í því að stofna til ótímabundinnar, formlegrar stigskiptingar með formlegum valdastöðum sem verða að valdastrúktúr að mér eiginlega verður orða vant við að vara við þessum háska. Vera kann, að persónulegt áhrifavald einstakra manna, t.d Helga Hrafns eða Birgittu, sé svo mikið að það geti valdið vandamálum ef viðkomandi missir af einhverjum ástæðum dómgreind sína. En meðan það er óformlegt þá er einfaldlega hægt að svipta viðkomandi valdinu alveg án nokkurs fyrirvara eða formlegra gerninga. Fólk hættir einfaldlega að hlusta á viðkomandi og fer að hlusta á aðra.
Ég er hræddur við þessar hugmyndir. Dauðhræddur. Óformleg áhrif eru ekki viðbjóður, en þau geta valdið vandamálum. Þau vandamál eru hins vegar oftast auðleyst. Formleg völd ERU hins vegar viðbjóður. Þau á ekki að búa til innan Pírata. Það mun verða okkar banamein.
Mörður segist vilja að „stýrimenn“ sem starfi innan Pírata geri það einungis til þess að sinna skýrt afmörkuðum verkefnum.
Í rauninni eru þetta býsna hressandi umræður. Við hér á Íslandi þekkjum varla annað lengur en kerfi þar sem framkvæmdavaldið tekur algjörlega ráðin af löggjafarvaldinu, semsé veikt alþingi gagnvart sterku ráðherraræði.
Og meira en það, ráðherraræðið tekur yfirleitt á sig mynd tvíeykis, þ.e. formanna samstarfsflokka í ríkisstjórn. Davíð/Halldór, Geir/Ingibjörg, Jóhanna/Steingrímur, Sigmundur/Bjarni. Öll völd virðast stafa frá tvíeykinu. Stundum virðist ekki einu sinni taka því að tala við aðra ráðherra.
Píratar færast stöðugt nær því að komast í ríkisstjórn. Það er náttúrlega útilokað að þar vilji þeir gera eins og hefðbundnir stjórnmálaflokkar – fjórflokkurinn eins og það er stundum kallað. Píratar hljóta að vilja vinda ofan af ráðherraræði og hafa mun virkara Alþingi. Umræður í þá veru gætu jafnvel fremur styrkt þá en veikt.