Við byggjum hótel og sköffum rútur og bílaleigubíla undir alla ferðamennina sem koma hingað. Aukingin var þrjátíu prósent í fyrra og stefnir í eitthvað svipað í ár. Það er í sjálfu sér áhyggjusamlegt og kannski óþarfi að efna til markaðsátaks fyrir Ísland eins og lesa má um hér. Kannski er ekki gott að fá miklu fleiri túrista í bili? Sjáum hvort við ráðum við þennan fjölda.
Uppbyggingin í borginni virkar hálf geðveikisleg á köflum, fjárfestar í leit að ávöxtun ryðjast inn um hverja glufu – það er kannski ekki von á góðu þegar hinir risastóru lífeyrissjóðir okkar eru ekki með nema fimmtung af fé sínu erlendis. Hvernig er hægt að ávaxta alla þessa peninga á Íslandi án þess að allt fari í vitleysu?
Svo er líka spurning hvað við erum að sýna ferðamönnunum hér í Reykjavík annað en hótel, minjagripabúðir og veitingahús?
Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, bendir á hvernig okkar helstu þjóðardýrgripir, handritin, eru falin ofan í geymslu. Hús íslenskra fræða vestur á Melum er ennþá bara hola í jörðinni. Og handritin er ekki hægt að sýna. Að líkindum myndu þau draga að sér mörg hundruð þúsund gesti á ári, bæði innlenda og erlenda. Væri jafnvel hægt að selja inn og hafa af góðar tekjur.
Kvæði sem Bjarki Karlsson orti um holu íslenskra fræða er orðin alþekkt:
Híbýli vegleg úr holunni áttu að rísa
horfinna kynslóða bergmáli að miðla og lýsa,
horfinn er vélagnýr, hljótt er í ríkinu þvísa,
heyri ég burðarjálk andlegrar stöðnunar frýsa.
Annað sem er furðuleg vöntun á er náttúrusafn, safn um hafið í kringum okkur, eldfjöllin, jöklana, lífríkið. Langflestir ferðmennirnir sem hingað koma vilja skoða náttúruna. Jafnvel má gera því skóna að flestallir túristar sem koma til Reykjavíkur myndu vilja skoða náttúrusafn – ef það væri fallegt og vel upp sett. Hrakfarasaga náttúrusafns á Íslandi er reyndar ótrúlega löng, meira en aldargömul, en tækifærið hlýtur að vera núna. Þarna eru hugsanlega komnir milljón nýir gestir á ári. Og það er hægt að láta þá borga aðgangseyri, þarf ekki einu sinni að vera svo ódýrt inn. Pössum okkur bara á því að hafa safnið nógu flott.
Þetta gæti verið undirstaðan í aukinni menningarferðamennsku. Hún situr einhvern veginn á hakanum í gullgrafaraæðinu sem hefur gripið um sig í túrismanum.