Alþýðuflokkurinn verður 100 ára 12. mars næstkomandi. Þetta var stjórnmálaflokkur sem rann inn í Samfylkinguna við stofnun hennar undir lok síðustu aldar. Nú er Samfylkingin reyndar komin niður í það fylgi sem löngum var hlutskipti Alþýðuflokksins. Þetta er flokkur með merka sögu, en á tíðum lá við að hann dytti beinlínis út af þingi. Stundum björguðu atkvæði af Vestfjörðum þar sem jafnaðarmenn voru löngum sterkir.
En Alþýðuflokkurinn var móðurflokkur vinstri flokka á Íslandi, eins og það er nefnt í erindi sem Guðjón Friðriksson mun flytja á afmælishátíð flokksins í Iðnó 5. mars. Guðjón er að skrifa sögu flokksins sem kemur út í haust. Alþýðuflokkurinn barðist fyrir réttindum og bættum kjörum alþýðu, var hinn pólitíski armur Alþýðusambandsins, og það unnust ýmisir sigrar eins og bygging verkamannabústaða og stofnun almannatrygginga. Alþýðuflokkurinn settist fyrst í ríkisstjórn 1934, það var í hinni svokölluðu „stjórn hinna vinnandi stétta“ með Framsóknarflokki. Á þeim tíma þótti mikið til þess vinnandi að þessir flokkar ynnu saman – ég kynntist gömlum krötum sem fengu blik í auga þegar var minnst á þessa stjórn.
Það er alltaf jafn skemmtilegast að minnast þess að einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Alþýðuflokksins var Jónas Jónsson frá Hriflu sem þó gekk ekki í flokkinn. Jónas tók hins vegar þátt í stofnun Framsóknarflokksins síðar á árinu – Framsókn á 100 ára afmæli í desember. Hugmynd Jónasar var að Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skyldu starfa saman, Alþýðuflokkurinn sem fulltrúi alþýðunnar í bæjum landsins, en Framsókn sem fulltrúi bænda og sveitafóks.
Alþýðuflokkurinn átti mjög í vök að verjast gagnvart framrás kommúnismans. Kommúnistar urðu sterkari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þar uxu og döfuðu hinir stóru jafnaðarmannaflokkar og settu á stofn velferðarkerfi, „þjóðarheimilið“ eins og það var kallað í Svíþjóð, en á Íslandi voru harðvítug átök milli komma og krata. Eftir stríðið hafði Alþýðuflokkurinn einatt minna fylgi en Sósíalistaflokkurinn sem síðar varð Alþýðubandalagið.
Aðild að Nató og her í landi varð mjög eldfimt mál á Íslandi. Á Norðurlöndunum urðu deilur um þátttöku í vestrænu varnarsamstarfi aldrei svo harðar, jafnaðarmannaflokkarnir þar voru mjög eindregnir í afstöðunni gegn kommúnismanum. Þetta skaðaði Alþýðuflokkinn mikið, forystumenn hans voru úthrópaðir sem svikarar og landráðamenn, samstarf vinstri flokka varð eiginlega óhugsandi á löngu tímabili, Alþýðuflokkurinn fór þá gjarnan í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki – lengst stóð Viðreisnarstjórnin frá 1959 til 1971. Í þessu samstarfi reyttist fylgið af flokknum og stundum var tvísýnt að hann myndi lifa af.
Það er af nógu öðru að taka í sögu Alþýðuflokksins. Þegar ég vann um tíma á Alþýðublaðinu – sem þá var þá í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu – fannst mér alltaf merkilegt hversu kratarnir voru heillaðir af mönnunum sem klufu flokkinn, Héðni Valdimarssyni, Hannibal Valdimarssyni og Vilmundi Gylfasyni. Og síðar klauf Jóhanna Sigurðardóttir sig líka út úr Alþýðuflokknum. Hins vegar var eins og þeir væru ekki eins hrifnir af forystumönnunum sem urðu eftir, Jóni Baldvinssyni, Haraldi Guðmundssyni, Stefáni Jóhanni Stefánssyni, Emil Jónssyni – það var ekki fyrr en síðar að orðspor Gylfa Þ. Gíslasonar fór að vaxa mjög, hann fékk alveg mátulega gott umtal á tíma Viðreisnarstjórnarinnar og árunum eftir hana. Mér fannst þetta bera vott um ákveðna veilu í flokknum.
Alþýðuflokkurinn tók harða afstöðu gegn helstefnunum nasisma og kommúnisma. Þetta er bæklingur frá því á tíma griðasáttmála Hitlers og Stalíns, þegar þeir tóku sér frí frá óvildinni í garð hvors annars til að beina morðæði sínu annað.
Húsnæðismálin voru alltaf fyrirferðarmikil, bæjarstjórnin var í höndum Sjálfstæðisflokksins sem þótti standa sig fjarskalega illa í að koma þaki yfir höfuð alþýðunnar. Þetta er úr kosningbæklingi frá 1934. Efri myndin er af verkamannabústöðunum við Hringbraut.
Hér eru verkamannabústaðirnir aftur í forgrunni. Þetta er kosningaplakat, teiknað af Wilhelm Beckmann, en hann var þýskur sósíaldemókrati sem flýði undan nasistum og settist að í Kópavogi.
Mörg plaköt Beckmanns eru hrein listaverk og jafnast á við það besta sem var gert í Evrópu á tíma þegar var mikill uppgangur á áróðursmyndlist – stundum reyndar í vafasömum tilgangi. En Beckmann hélt í jafnaðarmannahugsjón sína og gekk í Alþýðuflokkinn á Íslandi.
Byggingu hins glæsilega Alþýðuhússins í Reykjavík lauk árið 1936 en arkitekt hússins var Þórir Baldvinsson. Húsið var að miklu leyti byggt af alþýðufólki í sjálfboðavinnu. Þarna voru skrifstofur Alþýðuflokksins og verkalýðsfélaga, en auk þess aðsetur Alþýðublaðsins og Alþýðuprentsmiðjunnar. Í kjallaranum var veitingastaðurinn Ingólfs Café. Það er tímanna tákn að nú er hótel í húsinu.
Ísafjörður var mikill kratabær og þar reis þetta glæsilega Alþýðuhús. Þar er nú starfrækt hið skemmtilega Ísafjarðarbíó. Annar bær þar sem Alþýðuflokkurinn hafði feiknarleg ítök og stjórnaði lengi var Hafnarfjörður.