Þetta er frábær ljósmynd sem birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir og er sagt að hún sé eftir Alidu Visscher Schinn.
Myndin mun vera tekin 1941 og sýnir mikinn fjölda fólks á skautum á Tjörninni. Í mínu ungdæmi var Tjörnin ennþá þessi samkomustaður á vetrum, börn flykktust þangað á skauta, það var leikin tónlist úr hátölurum og ef ég man rétt var hægt að kaupa kakó í kjallara húss sem stóð þar sem Ráðhúsið er núna.
Þarna fór maður með vinum sínum – og kynntist börnum úr öðrum hverfum.
Þetta er mestanpart liðin tíð, borgin lætur reyndar einstöku sinnum hefla lítið skautasvell á Tjörnina, en það hefur ekki verið mikil stemming í kringum það. Í vetur hefur verið óvenju margir dagar sem er ís á Tjörninni, en reyndar er bent á það í umræðum um þessa mynd að meira ryk setjist á ísinn en áður – skýringin gæti þá verið sú að bílum hefur fjölgað og nagladekk þyrla upp ryki og skít.
En það þarf líka að halda við svellinu. Slökkviliðið var eitt sinn í Tjarnargötu og það sá stundum um að sprauta vatni á ísinn til að slétta hann fyrir skautafólk.
Það er gaman að rýna í myndina. Ekki sést bíll á ferð á Fríkirkjuveginum, en húsalengjan þar hefur nákvæmlega ekkert breyst. Það hefur tekist betur að varðveita byggðina við Tjörnina en annars staðar. Svo má sjá að börnin eru ekki bara á skautum, heldur eru margir á skíðasleðum eins og voru mjög vinsælir í eina tíð.