fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Trump og Sanders og reiðu kjósendurnir

Egill Helgason
Miðvikudaginn 10. febrúar 2016 10:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bernie Sanders og Jeremy Corbyn eru gamlir karlar, en þeir eru fulltrúar breytinga sem eru að verða á vinstri væng stjórnmálanna. Vinstrið hefur lengi verið upptekið af því sem á ensku kallast identity politics, það eru stjórnmál sem snúast um kynferði, kynhneigð, kynþætti, fjölmenningu og réttindi minnihlutahópa.

Sanders og Corbyn færa stjórnmálin nær hefðbundnari vinstri áherslum sem snúast um kaup og kjör og ójöfnuð, nær tímanum sem sem var þegar verkalýðshreyfingin var mjög fyrirferðarmikil á vinstri vængnum. Þegar Blair tók við völdum í Bretlandi með sinn Nýja Verkamannaflokk lýsti helsti hugmyndafræðingur hans, Peter Mandelson, því yfir að sér væri alveg sama hversu ríkt annað fólk yrði – það truflaði sig ekki neitt. Blair og félagar höfðu engan áhuga á verkalýðsstjórnmálum.

Nú þegar vaxandi ójöfnuður er sífellt að verða meira ásteytingarsteinn, þætti flestum holur hljómur í slíkri yfirlýsingu frá forystumanni í vinstri flokki.

Eitt af því sem er áberandi er hvernig láglaunafók, verkalýðsstéttin eins og það var eitt sinn kallað, og lægri millistétt, hefur orðið viðskila við hefðbundna vinstri flokka og hinar félagspólitísku áherslur þeirra. Í Evrópu hallar þetta fólk sér í auknum mæli að pópúlískum hægri flokkum. Í Bandaríkjunum ryðjast Bernie Sanders og Donald Trump fram á sviðið og sprengja í loft upp allar væntingar sem menn höfðu til forsetakosninganna á þessu ári.

Þar er þess að gæta að þótt Trump tali eins og pópúlisti eða hægriöfgamaður um innflytjendamál, þá eru áherslur hans í efnahagsmálum nokkuð til vinstri (og það er reyndar líka hægt að segja um pópúlistaflokka í Evrópu). Hann segist vilja hækka skatta á ríkt fólk, létta álögum af millistéttinni, minnka möguleika stórfyrirtækja á skattaundanskotum og setja tolla á innfluttan varning. Að nokkru leyti snýst þetta um að snúa til baka hjólum hnattvæðingarinnar – sem hið nýja blairíska vinstri var svo hrifið af.

Fulltrúar „kerfisins“ eru í mestu vandræðum með þetta. Hægra megin hefur Jeb Bush ekki náð neinu flugi í kosningabaráttunni, en vinstra megin er farið að tala um Hillary Clinton sem forréttindakonu og yfirstéttarkerlingu. Hún er partur af „elítunni“, meira að segja femínistar eru að snúast gegn henni og á sveif með hinum 74 ára gamla Sanders. Í anda þeirra stjórnmála sem var lýst hér fyrst í greininni hefði verið í hæsta máta eðlilegt að kona tæki við af blökkumanninum  Obama – og það var draumur margra. En hann er óvinsæll og hún er enn óvinsælli.

Kjósendur í Bandaríkjunum eru reiðir – og það á náttúrlega við um Evrópu líka. Alls staðar má greina vantraust á hefðbundnum stjórnmálamönnum og löngun til að refsa þeim. Það er ýmislegt sem veldur þessari reiði sem breiðist út meðal almennings. Tekjur hafa staðið í stað, það er allt í einu ekki einboðið að börnin muni hafa það betra en foreldrarnir.

Kostnaður við heilbrigðisþjónustu fer vaxandi en þjónustan batnar ekki endilega. Störf flytjast burt vegna hnattvæðingar – innflytjendum fjölgar og þeir verða sýnilegri. Ódýrt innflutt vinnuafl er mjög í þágu hins kapítalíska kerfis, en hefðbundinni verkalýðsstétt og lægri millisétt finnst sér ógnað. Fjármálastofnanir verða sífellt ráðríkari – og þeim er bjargað þegar þær koma sér í vandræði með græðginni. Auðhringar eru utan og ofan við lög og flytja fjármagn milli landa að vild. Reiðin beinist líka gegn fjölmiðlum og meintri elítu menntamanna.

Hefðbundnum stjórnmálamönnum er kennt um, en völd þeirra eru í raun afar takmörkuð. Þegar nýir menn eru kosnir og ætla að hreinsa til mistekst þeim yfirleitt hrapallega – Obama boðaði nýja von 2008, það reyndist tálsýn. Árni Bergmann orðar það svo í lítilli grein á Facebook:

Þetta verður forsenda grimmrar vanmáttarkenndar og reiði sem sífellt leitar sökudólga – og finnur þá auðveldlegast í pólitískum hreyfingum og foringjum. Þeir sem mestu ráða í reynd – þeir sem eiga landið og miðin og fyrirtækin – eru líka mjög snjallir við koma því inn hjá fólki að einmitt hjá pólitíkusum séu svikin stærst og mest við þær eilífu framfarir sem menn vilja helst líta á sem sín mannréttindi.

Kerfið er svo fast fyrir að það þarf mikið til að hnika því. Reiðin og rótttæknin vex – og allt í einu eru forsetaframbjóðendurnir Trump og Sanders, ekki Bush og Clinton eins og búist var við.

 

ct-bernie-sanders-donald-trump-megyn-kelly-per-001

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Húsnæðisvandinn er óleysanlegur – ef við lærum ekki lexíu Hrunsins

Húsnæðisvandinn er óleysanlegur – ef við lærum ekki lexíu Hrunsins
Eyjan
Í gær

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina
Eyjan
Í gær

Kosningaspá DV þremur dögum fyrir kjördag – miðjustjórn í kortunum

Kosningaspá DV þremur dögum fyrir kjördag – miðjustjórn í kortunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Þau leynast víða vinstri slysin – enn á ný horfa sjálfstæðismenn til vinstri

Orðið á götunni: Þau leynast víða vinstri slysin – enn á ný horfa sjálfstæðismenn til vinstri
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Konurnar taka völdin

Orðið á götunni: Konurnar taka völdin
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur