1998 sögðu þrír bankastjórar Landsbankans af sér vegna deilna um risnukostnað – það snerist aðallega um laxveiði sem löngum var uppspretta spillingar á Íslandi.
Við þetta tækifæri sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, í ræðu á Alþingi.
Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.
Upphæðirnar sem þarna var um að ræða voru afar smáar miðað við það sem maður horfir upp á í Borgunarmálinu. Þetta mál verður eiginlega svæsnara með hverri frétt sem birtist af því.
Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag segir að Borgun sé metin á allt að 26 milljarða. Vildarvinir sem fengu að kaupa 32,2 prósenta hlut í Borgun í nóvember 2014 fengu hann á 2,2 milljarða, en út frá virðismati KPMG sem Morgunblaðið greinir frá í fréttinni er hluturinn nú 6-8 milljarða króna virði.
Málið verður æ pínlegra, fyrir Landsbankann, bankastjórann, stjórn bankans, Bankasýsluna – já, og það verður að segjast eins og er, fyrir fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, það er óþægilegt fyrir hann að vera tengdur forréttindamönnum sem fengu að sitja að þessum feiki ábatasömu viðskiptum – nánast í skjóli nætur.
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, krefst þess einfaldlega að peningunum verði skilað og hún vill líka óháða rannsókn Bankasýslunnar. Þar er stjórnarformaður einn af trúnaðarmönnum Bjarna Benediktssonar, Lárus H. Blöndal. Í fréttum hefur verið sagt frá því að Bankasýslan hafi „óskað eftir nánari upplýsingum um málið“.
En svo rifjast líka upp, eins og áður segir, fordæmi bankastjóranna þriggja sem sögðu af sér 13. apríl 1998.