Af öllum hljómsveitamyndum held ég að þessi sé uppáhaldið mitt. Ég tek fram að þegar ég var drengur klippti ég út hljómsveitamyndir og hengdi upp á vegg. Hún er einhvern veginn alveg fullkomin þessi mynd.
Þetta er Trúbrot – íslenska súpergrúppan. Myndin er tekin niðri í Austurstræti meðan ennþá var bílaumferð þar í gegn. Myndin er einhvern veginn þannig að Reykjavík virkar eins og stórborg í bakgrunninum – sem hún var svo sannarlega ekki. Litirnir eru dásamlega fallegir og fötin skemmtileg.
Hljómsveitarmeðlimir eru ungir og ferskir – Gunni Þórðar, Shady Owens, Rúnar Júl, Kalli Sighvats, Gunnar Jökull. Þau voru miklar stjörnur á þessum árum. Ég man hvað var mikill sláttur á Kalla þegar ég var strákur og sá hann ganga niður Bankastrætið. Við kynntumst síðar, en þá var öldungis fjarlægt að maður ætti eftir að ná að þekkja slíkt goð.
Það er skrítið til þess að hugsa að þrír síðasttöldu skuli vera horfnir úr þessu lífi.
Ég er eiginlega viss um að myndin hafi verið tekin af Sigurgeiri Sigurjónssyni, þeim frábæra ljósmyndara, sem tók mikið af hljómsveitamyndum á bítlatímanum. Sigurgeir tók þó oftar svarthvítar myndir. Frægust er auðvitað mynd hans af Jimi Hendrix, tekin í Stokkhólmi. Hún birtist ásamt fleiri myndum í bók sem nefnist Poppkorn og kom út fyrir nokkrum árum.
Árið er væntanlega 1969. Myndir þvælast víða núorðið, ég fann hana á vef sem er helgaður hljómsveitarstjórum úr Evrovisjón. Þar er síða um Gunnar Þórðarson.