1978 var stóra tónleikaárið mitt. Ég sá Bowie í Marseille, Dylan tvívegis í París – í þeirri frægu tónleikaferð sem síðar kom út á tvöfaldri plötu kenndri við tónleikahúsið Budokan. Ég sá Frank Zappa og Peter Gabriel á Knebworth hátíðinni í Englandi.
En tónleikarnir sem ég hlakkaði eiginlega mest til að fara á voru aldrei haldnir. Þetta var gigg með hljómsveitinni Jefferson Starship í París. En áður en til kom leystist hljómsveitin upp í rifrildi – og væntanlega fylleríi og neyslu líka. Ég komst ekki á tónleikana og held ég hafi ekki fengið miðana endurgreidda. Ég er ennþá svolítið spældur.
Jefferson Starship var samansett úr fyrrum meðlimum hljómsveitarinnar Jefferson Airplaine, Grace Slick, Marty Balin og Paul Kantner. Þau voru sterkir persónuleikar, gátu stundum unnið saman og stundum ekki. Kantner og Slick voru hjón um tíma, eignuðust stúlku sem hét China Wing. Það var afar hippalegt.
Þau voru öll forsöngvarar, Kantner, Balin og Slick og eitt aðaleinkenni tónlistarinnar, fyrir utan stóran og breiðan hljóm, er hvernig raddir þeirra vefjast sundur og saman.
Hér er myndband við lag Kantners, Have You Seen the Stars Tonite. Hann var alla tíð heillaður af vísindaskáldskap. Þarna bregður fyrir ýmsum þekktum andlitum úr tónlistarsenunni í Kaliforníu á hippatímanum. Lagið er af plötunni Blows Against the Empire sem kom út 1970 – löngu á undan Star Wars.
Ég sé í fjölmiðlum í morgun að Paul Kantner hafi dáið úr hjartabilun, 74 ára að aldri.