Píratar eru í 42 prósentum í nýrri skoðanakönnun. Fylgið vex semsagt enn. Menn hafa verið að spá því að þessu fari að ljúka, Píratarnir hafa verið að hækka flugið síðan í apríl, en það er aldeilis ekki komið að því.
Hverju sætir? Þetta er í raun stærsta spurningin í íslenskum stjórnmálum þessa dagana.
Glöggur lesandi síðunnar setti fram þessa skýringu:
Konan mín á fjölmennan ættboga hér í borginni og allt unga fólkið, mínus 30 ára, segist styðja Pírata. Ég spyr af hverju. Jú, segir þetta klára og vel menntaða fólk, þeir eru með upplýsinguna á oddi, beint lýðræði og hafa ekki tekið neinn þátt í sukkinu. Annað fæ ég ekki upp. Mér finnst þetta skrýtið, því það sem brennur á ungu fólki núna er óbærilegur kostnaður við leigu/kaup á íbúð, vanburða heilbrigðiskerfi að mörgu leyti, vaxandi misskipting; þessir krakkar hafa alls ekki hnýtt í bankakerfið í mín eyru – og þeir lesa ekki blöð. Ergó: unga kynslóðin er orðin anti-pólitísk, hún sér í Pírötum einhvers konar „hreint“ afl, syndlausa menn sem mega kasta steinum.