Fyrstu dagar ársins 2016 gera mann ekki bjartsýnan á ástand heimsmála.
Góðvildin gagnvart flóttamönnum er mestanpart gufuð upp. Í Þýskalandi á Angela Merkel í vök að verjast. Það kemur reyndar fyrir að hún eigi mótleiki, eins og þegar Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, fagnaði því að nú væru að rísa upp girðingar innan Evrópu.
Merkel svaraði og sagði að hún hefði sjálf verið alin upp bak við girðingu. Merkel var fædd og uppalin í hinu kommúníska Þýska alþýðulýðveldi.
Danir setja lög um að eigur flóttamanna skuli gerðar upptækar, heimsbyggðin horfir í forundran á þessa rangsleitni. Hvernig getur ríkasta samfélag heims, eitt mesta velferðarríki allra tíma, orðið svona smásálarlegt?
Grikkir eiga í vök að verjast vegna þess að flóttamannastraumurinn yfir Eyjahafið heldur áfram og eykst hugsanlega aftur á vormánuðum. Tyrkir fengu stórfé frá Evrópusambandinu til að reyna að loka fyrir þessa fólksflutninga, enn virðast þeir ekki hafa staðið við neitt.
Ráðamenn í Evrópu skamma Grikki fyrir að stöðva ekki flóttamannastrauminn. Grikkir spyrja auðvitað – hvernig? Eigum við að skjóta fólkið? Slíkt er ekki alveg í samræmi við gildismat okkar eða Evrópu.
Gríska ríkið, sem er á hausnum, fær skammarlega litla hjálp frá alþjóðasamfélaginu við að leysa þennan vanda – sem er sannarlega ekki Grikkjum að kenna. Þar eru að baki önnur og voldugri ríki.
Ein hugmyndin sem hefur komið fram er að reisa girðingu á Balkanskaga svo flóttamenn komist ekki frá Grikklandi. Önnur er sú að Grikjum verði gefnar upp skuldir að einhverju leyti gegn því að þeir taki við fólki og geymi það í flóttamannabúðum.
Hugmyndin er fáránleg, ósmekkleg og dónaleg meðan ríki norðar í álfunni eru að reyna að þvo hendur sínar af flóttamannavandanum og Bandaríkin, sem eiga mikinn þátt í ástandinu, vilja helst ekki taka við flóttafólki.
Verst er að Evrópusambandið ræður ekki við neitt. Innan þess er engin samstaða og mikill skortur á forystu. Það er erfitt að hafa tiltrú á ESB þessa dagana. En valkosturinn er þó verri – Evrópa tortryggninnar sem brotnar upp í ríki með girðingar á milli.
Flóttamenn koma til grísku eyjarinnar Lesbos. Stungið hefur verið upp á því að íbúar á nokkrum grískum eyjum, sem eru nærri Tyrklandi, fái friðarverðlaun Nóbels fyrir björgun flóttamanna.