fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Hinir raunverulegu óvinir íslams

Egill Helgason
Mánudaginn 12. janúar 2015 20:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Andri Thorsson er frábær pistlahöfundur. Skrifar einstaklega gott og skýrt mál og það er oftast mjög forvitnilegt að fylgjast með honum hugsa í pistlum sínum. Þeir eru því líkastir að höfundurinn sé að hugsa upphátt – mest fyrir sjálfan sig, en við lesendurnir fylgjum eftir.

Pistill Guðmundar Andra sem birtist í Fréttablaðinu í dag er einn sá besti sem ég hef lesið eftir hann. Þetta er grein sem mætti birta í hvaða stórblaði sem er. Hann er skrifaður af skynsemi, þekkingu og rökfestu. Fjallar um morðiárásina á Charlie Hebdo, ofstækismenn og viðbrögð við þeim.

Þetta er skyldulesning. Ég ætla að leyfa mér að endurbirta pistilinn í heild sinni. Hann ber yfirskriftina Glæpir gegn mannkyni.

Í leikritum Shakespeares kemur stundum fyrir persóna sem nefnd er fíflið og hefur það hlutverk að segja alls konar hluti sem aðrir myndu aldrei segja. Þetta er ekki beint virðingarstaða – eiginlega fremur óvirðingarstaða – viðkomandi þarf að sjá til þess að fram komi sú hlið sannleikans sem við veigrum okkur við að segja, vegna meðvirkni eða út af sjálfsritskoðun, tepruskap, alvörugefni, eða bara af tillitssemi í garð náungans. Fíflið segir meira að segja hitt og þetta við grimman kónginn og kemst upp með það vegna þess að það nýtur griða í mannfélaginu; það starfar á undanþágu; það er hláturleyfishafi. Þessir persóna er ómetanlegur partur af samfélagi okkar.

Og samt erum við líka Charlie

Í nútímasamfélögum gegna vissir listamenn þessu hlutverki; ekki síst skrípamyndateiknarar. Þeir eru hluti af sameiginlegri samfélagsvitund okkar og í þeim skilningi erum við öll Charlie, hvað sem því líður að við myndum ekki öll teikna svona dónalegar myndir af Múhameð spámanni eða vera svona gagntekin af rössum. Þeir eru stundum eins og hvatvís börn, teikna það sem kemur í hugann og þeim finnst sniðugt sjálfum en er auðvitað misfyndið. En þegar fyndnin lánast er í henni eitthvað óvænt, jafnvel fáránlegt; hláturinn ber einatt í sér eitthvað fjarstæðukennt og fráleitt – eitthvað „rangt“ – eitthvað óskammfeilið, sem hneykslar okkur en líka um leið eitthvað tært og hreint, jafnvel barnslegt sem kallar fram bros. Skrípamyndin er ekki beinlínis málefnaleg, hún starfar á hvatasviðinu; við hlæjum að henni eða yppum öxlum.
Þetta fífl hefur nú verið tekið af lífi í Frakklandi fyrir þá sök að vekja hlátur. Til þess að tjá ógeð okkar og sorg yfir því og undirstrika rétt okkar til að hlæja og teikna og tala og tjá okkur segjumst við nú öll vera Charlie.

Við búum í opnu samfélagi. Hér má segja og tjá næstum hvað sem er, hvað sem líður fornfálegum og óvirkum lagabókstaf um guðlast. Á hinu opinbera svæði hefur nánast allt verið afhelgað. Það táknar að þótt einhverjum sé eitthvað heilagt verður viðkomandi að una því að öðrum þyki lítið til þess helgidóms koma. Hið heilaga nýtur ekki lengur friðhelgi í opinberu rými, heldur hefur færst á svið hins einkalega. Franska byltingin snerist raunar ekki síst um það. Hafi þessi afhelgun átt sér stað í tilteknu rými er ekki hægt að vernda fólk fyrir henni. Það kann að vera erfitt fyrir suma að sætta sig við slíkt en þeir verða að læra það, ætli þeir að búa í samfélagi við aðra. Fyrir vikið má gera grín að trúarbrögðum, líka islam. Öll trúarbrögð þurfa á hlátrinum að halda. Raunar má telja það til mannréttinda að tilheyra mengi sem gert er grín að: það táknar að maður sé fullgildur meðlimur í samfélaginu; fyrir utan það að öll höfum við gott af því að horfa á sjálf okkur í spéspegli.

Í mannfélaginu vekur allt andstæðu sína. Í opnu þjóðfélag heyrast og sjást alls kyns tilbrigði mannlegrar hugsunar þegar hún er ekki reyrð í fjötra hugmyndafræði: hinu háleita fylgir lágkúra, enda skerpir lágkúran næmi okkar á hið háa; fegurð kallar á ljótleika sem aftur vekur þrá eftir fegurð; andlegri leit fylgir áhugi á líkamsstarfseminni; nautnin kemur í kjölfar meinlætanna; guðstrúnni fylgir guðlast; fólk sem sýslar með gömul handrit þekkir klámfengið og ósæmilegt spássíukrotið hjá munkunum sem sátu við skriftir og guðrækilegar iðkanir. Á Íslandi tíðkaðist slíkur orðaósómi í svokölluðum beinakerlingavísum; sem voru lagðar inn í vörður á afviknum stöðum þar sem hægt var að lesa þær, og hnussa hlæjandi.

Glæpir gegn mannkyni

Mennirnir sem réðust inn á skrifstofur franska skopmyndablaðsins eru partur af heimshreyfingu sem kennir sig við islam.
Þetta eru óvinir islams. Þeir hafa raunar lagt sig sérstaklega fram um að drepa múslima víða um heim og saklausa borgara sem ekki tengjast trúmálum sérstaklega – þeir drápu um daginn 2000 manns í þorpinu Baga í Nígeríu í stríði sínu gegn þekkingu og fræðslu. Verk þeirra koma engum verr en múslimum í Evrópu; skapar umsátursástand um hvern einstakling úr þeim ranni. Þessir menn hafa sjálfir framleitt afkáralegri (og ófyndnari) skrípamyndir af Múhammeð en nokkrir skopteiknarar myndu gera; fóru á sínum tíma frá Danmörku um hinn múslimska heim og dreifðu fölsuðum myndum af spámanninum með svínshaus og sögðu vera úr Jyllandsposten. Svona morðvargar hafa fylgt mannkyni frá elstu tíð og eiga eftir að gera það um aldur og ævi. Þetta eru rauðu varðliðarnir í menningarbyltingunni í Kína; IRA á Írlandi; rauðir kmerar í Kambódíu; serbneskir vígamenn sem myrtu múslima í Bosníu og nauðguðu konum kerfisbundið; Baader-Meinhof í Þýskalandi; rauðu herdeildirnar á Ítalíu: Bandaríkjaher í Víetnam. Morðóðir hermenn sem æða fram undir merkjum hugsjóna. Þetta eru ekki valdalausir smælingjar, olnbogabörn samfélagsins sem leiðst hafa á villugötur vegna vonsku samfélagsins, heldur hópar trylltra einstaklinga sem ánetjast hafa vímunni sem fæst af morðum og illvirkjum, fara um í nafni hreinleikans – og drepa. Þeir eiga sér engar málsbætur og framferði þeirra víða um heim eru glæpir gegn mannkyni.

Þeir ætla að stöðva það með öllum ráðum að við blöndum geði. Að kristnir menn og múslimar, trúlausir, búddistar og leitandi sálir með ólíkar lífsskoðanir, hittist og horfist í augu, öðlist jafnvel gagnkvæman skilning. Þetta eru skoðanabræður Breiviks í Noregi og þeir eiga sín skoðanasystkin hér á landi. Þetta er fólkið sem berst gegn því sambýli sem nefnt hefur verið fjölmenning, og felst í því að við sýnum hvert öðru umburðarlyndi og velvild, tölum saman, hlæjum saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“