Þegar ég var að alast upp voru sjö kvikmyndahús í mið- og vesturborginni, Nýja bíó, Gamla bíó, Stjörnubíó, Háskólabíó, Austurbæjarbíó og Hafnarbíó en nokkuð seinna opnaði Regnboginn. Það voru ennþá kvikmyndasýningar annað veifið í Tjarnarbíói, en Trípolíbíó var búið að rífa. Ég man ekki eftir því.
Nú eru aðeins tvö bíó á þessu svæði, Bíó Paradís sem starfar í húsi Regnbogans, og Háskólabíó – sem er þó ekki nema svipur hjá sjón að því leyti að stóri og glæsilegi salurinn þar er ekki lengur notaður undir kvikmyndasýningar nema við sérstök tækifæri.
Bíóin eru komin í úthverfin – ég hef alloft farið alla leið upp í Egilshöll og inni í Smáralind til að sjá kvikmyndir. Þar eru flottustu bíóin núorðið, þótt reyndar verði að geta þess að kvikmyndahús nútímans hafa ekki sama karakter og bíóhallirnar í gamla daga, hvað arkítektúr varðar eru þau öll eins. Notagildið ræður.
Hér eru tvær ljósmyndir sem birtast á vefnum 101Reykjavík – lesendur þessarar síðu hafa kannski orðið varir við að ég hef mikið dálæti á honum.
Annars vegar er hér Stjörnubíó sem var á Laugavegi, upp við Snorrabraut. Fyrst þegar ég kom þangað var salurinn með glæsilegum svölum. Manni var sagt af öðrum krökkum að sitja aldrei í sætunum niðri á gólfinu, því Grettisgötugengið svokallað gerði sér það að leik að skyrpa ofan á gesti þar eða jafnvel láta detta kókflöskur í hausinn á þeim.
Svo brann Stjörnubíó og var endurreist í nútímalegri mynd. Þótti mjög flott um tíma. Þarna sá maður ýmsar myndir eins og Byssurnar í Navarone, síðar Groundhog Day – jú, og Emmanuelle!
Hin myndin er af Trípolíbíó. Eins og áður segir man ég ekki eftir því. Einhverjir lesendur geta kannski bætt úr því. Það var í bragga frá því í stríðinu – rétt eins og Hafnarbíó sem lifði lengur. Þarna reis síðan Árnagarður.