fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Kosningarnar í Grikklandi og nýja vinstrið við Miðjarðarhaf

Egill Helgason
Fimmtudaginn 15. janúar 2015 14:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosningar sem verða í Grikklandi 25. janúar gætu orðið sögulegar. Til þeirra var kallað með skyndi vegna þess að gríska þinginu tókst ekki að velja forseta. Þá varð úr að rjúfa þing og boða til kosninga.

Syriza, sem er bandalag ýmissa hópa á vinstri væng, virðist næsta öruggt með að sigra. Syriza hefur forskot í öllum skoðanakönnunum, mælist með fylgi á bilinu 34-37 prósent. Það virðist næstum óhugsandi fyrir stjórnarflokkinn Nea Demokratia að vinna upp þetta forskot. Fylgi þess flokks mælist á bilinu 30-32 prósent.

Aðrir flokkar eru miklu minni, það er merkilegt að gamli jafnaðarmannaflokkurinn, Pasok, mælist ekki með nema í kringum 4 prósent. Flokkurinn var lengi við völd, en er nú við það að hverfa.

Fylgi nýnasistaflokksins Gylltrar dögunar virðist líka ætla að minnka. Hann mælist með í kringum 6 prósent

Nú situr við völd í Grikklandi stjórn Nea Demokratia, sem er gamalgróinn hægri flokkur, oft nokkuð tengdur við spillingu. Hann nýtur stuðnings Pasok, sem geldur það greinilega dýru verði, þótt jafnaðarmennirnir hafi engan ráðherra í stjórninni.

Ríkisstjórnin hefur fylgt eftir áætlunum um aðhald og efnahagslega endurreisn í Grikklandi. Ákveðinn efnahagsbati hefur þó gert vart við sig í Grikklandi, það er einhver hagvöxtur og ferðamannaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr. Aþena er augljóslega að rétta úr kútnum.

En vandamálin eru samt ærin. Atvinnuleysistölur eru mjög háar, velferðarþjónusta hefur mjög látið á sjá og skuldir ríkissins eru svo miklar að þær verða aldrei greiddar. Sú hugmynd er líkt og skáldskapur – sett fram til að viðhalda einhvers konar blekkingu gagnvart evrópska fjármálakerfinu. Spilling er enn landlæg, þrátt fyrir að mikið átak hafi verið gert til að bæta skattheimtu.

Syriza gerir út á þessa óánægu og tekst það vel. Foringi flokksins er Alexis Tsipras, 40 ára gamall, fæddur nokkrum dögum eftir fall grísku herforingjastjórnarinnar 1974. Hann er mælskur og laglegur, og hefur tekist að halda saman þeim ólíku hópum sem mynda Syriza. Slíkt gæti þó reynst þrautin þyngri ef hann kemst í stjórn – flokkshollusta er ekki lengur sterk í Grikklandi.

Tsipras hefur verið útmálaður sem stórhættulegur maður af andstæðingum sínum á hægri vængnum. Þjóðverjar hafa líka lagt orð í belg, þau skilaboð bárust frá Þýskalandi að Grikkir gætu bara hypjað sig úr evrunni ef Tsipras vildi ekki undirgangast skilmála Evrópusambandsins. Þetta hefur virkað nánast öfugt og nú hefur Nea Demokratia breytt málflutningi sínum. Samaras forsætisráðherra er farinn að draga úr málflutningi sem felur í sér að Tsipras muni hleypa öllu í bál og brand, heldur leggur hann áherslu á þann árangur sem hefur þó náðst í efnahagsmalum.

Tsipras vill halda áfram með evruna – mjög fáir grískir stjórnmálamenn vilja yfirgefa hana – en hann vill semja upp á nýtt um skuldir Grikklands. Það er ekki ósanngjörn krafa. Hann vill líka hækka laun að nýju og bæta fyrir niðurskurð í opinberri þjónustu.

Væntanlegur kosningasigur Syriza er strax farinn að hafa áhrif. Hlutabréf í Aþenu hafa lækkað, skuldatryggingaálag hefur hækkað, það eru merki um að skatttekjur séu að dragast snöggt saman, það er merki um að peningar leiti úr landi eða undir koddana.

Óvissan er líka mikil. Syriza tekst varla að vinna hreinan meirihluta í þinginu, og þarf að reiða sig á stuðning annarra flokka. Slíkar samningaviðræður gætu reynst erfiðar. Niðurstaðan gæti þess vegna orðið stjórnmálakreppa og aðrar kosningar innan skamms.

Fyrir Evrópusambandið gætu þetta líka verið talsverð tíðindi. Evran er traustari nú en hún var fyrir nokkrum árum, en brottrekstur Grikkja úr henni eða hótanir um slíkt geta haft ansi slæm áhrif á tíma þegar ríkir efnahagsleg stöðnun í álfunni og stór hagkerfi eins og í Frakklandi og á Ítalíu standa mjög veikt.

Hin pólitísku áhrif gætu líka orðið talsverð, eins og til dæmis á Spáni. Þar eiga að vera kosningar á þessu ári og nú ber svo við að nýr vinstri flokkur, Podemos, er efstur í skoðanakönnunum. Alexis Tsipras var einmitt heiðursgestur á fyrsta flokksþingi Podemos – svo hugsanlega er hægt að tala um nýtt vinstri við Miðjarðarhaf. Á móti kom hægrimaðurinn Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, til Grikklands til að styðja skoðanabróður sinn Antonis Samaras.

Báðir lögðu þeir áherslu á að miklar fórnir hefðu verið færðar, en nú sé að byrja betri tíð sem útheimti stöðugleika. Vinstri flokkarnir tala hins vegar um að alltof hart hafi verið gengið að alþýðu manna, en ekki síður að nú sé tími til að losna við gamlar elítur – l’ancien régime.

 

Podemos' Secretary General Pablo Iglesias and Alexis Tsipras, leader of Greece's Syriza party, wave during a meeting in central Madrid

Syriza og Podemos: Alexis Tsipras og Pablo Iglesias.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“