fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
Eyjan

Fall Berlínarmúrsins og afmælið mitt

Egill Helgason
Sunnudaginn 9. nóvember 2014 13:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berlínarmúrinn féll í þrítugsafmælinu, beinlínis í veislunni. Það var semsagt gott partí.

Nú eru 25 ár síðan. Árið 1989 var einstakt, höfugt, maður horfði á einræðisherra og fauta hrynja af valdastólum.

Ég ferðaðist einmitt um Austur-Evrópu þetta ár, sem oftar. Maður fann óróann, en ekki óraði manni fyrir að allt yrði hrunið fáum mánuðum síðar.

Undir lok ársins heyrði kommúnisminn í Evrópu eiginlega sögunni til og í Sovétríkjunum var hann í andaslitrunum.

En viðbrögðin voru dálítið skrítin – hefðu strax átt að vekja illan grun. Það var talað um „endalok sögunnar“, að nú yrði framrás markaðshyggjunnar varla stöðvuð til eilífðar, um nýja heimsskipan.

Austur-Evrópu hefur í sjálfu sér reitt vel af síðasta aldarfjórðunginn. Hún var fljót að koma sér í skjól Evrópusambandsins og Nató. En í Rússlandi stjórna enn arftakar Homo Soveticus – og eru aftur farnir að hampa Stalín, þjóðin sekkur ofan í fen fátæktar og heilsuleysis, meðan einræðisherrann stefnir herliði inn í nágrannaríki.

Í Kína er að nafninu til stundaður kommúnismi, en í raun er það nær einhvers konar herskálakapítalisma – og sannar ólíkt því sem margir héldu fram að lýðræði og markaðsbúskapur þarf ekki alltaf að fara saman.

Hin nýja heimsskipan strandaði svo endanlega í Miðausturlöndum. Í Íraksstríði 2 var þetta búið. Afglapinn George W. Bush og óþurftarmennirnir í kringum hann sólunduðu áhrifavaldinu sem Bandaríkin höfðu eftir „sigurinn“ í Kalda stríðinu og það er vafasamt að Bandaríkin muni nokkurn tíma endurheimta það aftur.

En fall Múrsins var gleðilegur atburður. Það var ekki bara Þýskaland sem náði aftur saman heldur Evrópa. Lönd eins og Pólland og Tékkland dafna vel og – svæði í Mið- og Austur-Evrópu sem virkuðu afskekkt og dulúðug eru aftur í alfaraleið. Evrópa fann aftur hinn helming sinn.

Þetta er óendanlega miklu betra en hinar illa lýstu hálfhrundu borgir og niðurníddu sveitir sem maður upplifði á ferðalögum í Austur-Evrópu fyrir hrun Múrsins. Það var alltaf eins og maður væri kominn í annarlegan heim – fólk þorði varla að tala við mann, en þegar maður náði því í einrúmi stóð upp úr því bunan um kúgun og einræði. Jú, þetta var merkileg upplifun – og hafði mikil áhrif á mig.

Síðan þá hef ég komið til Berlínar í ótal skipti. Borgin er óreiðukennd, en ég hugsa oft þegar ég geng um hana hvað óreiðan er miklu betri en fjöldagöngur nasista og síðar kommúnista sem fóru um þessar sömu götur á 20. öldinni.

En svo eru það merkilegar pælingar að kommúnisminn í austri hafi að nokkru leyti haldið aftur af kapítalismanum í vestri. Því framan af var samkeppni milli þessara kerfa – kommúnistar þurftu að reyna að framleiða neysluvarning og í ríkjum kapítalismans var komið upp heilbrigðis- og velferðarkerfum. Jöfnuður hefur ekki verið meiri á Vesturlöndum en á tíma Kalda stríðsins. Það varla nein tilviljun.

En nú, 25 árum eftir lok þess, er eins og ekkert haldi lengur aftur af fjármálaöflunum, þau hafa eiginlega sagt sig úr lögum við aðra hluta samfélagsins, eiga sína stjórnmálamenn og ríkisstjórnir, og ójöfuður snareykst. Var einhver sem óskaði sér svona kerfis? Eru kannski nýir múrar sem þarf að fella?

 

History_Opening_of_Berlin_Wall_Speech_SF_still_624x352

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur