Maður heyrir af framsóknarmönnum sem tóku sæti á listum flokksins, að því þeir héldu neðarlega, en vita nú ekki hvaðan á sig stendur veðrið.
Eru líklega á leiðinni á þing.
Á meðan eru fjölmargir sem töldu sig hafa hreppt örugg þingsæti hjá Sjálfstæðisflokknum farnir að óttast um sinn hag.
Sjálfstæðisflokkurinn á í vandræðum vegna þess að hann veit ekki hvernig hann á að bregðast við stórsókn Framsóknarflokksins.
Það dugir skammt að baka pönnukökur í verslanamiðstöðvum – eins og frambjóðendur hafa gert undanfarið.
Og það er erfitt ef það virkar beinlínis fælandi að sýna formann flokksins.
Raunar er sagt að nú sé í gangi skoðanakönnun sem eigi að mæla hvort flokkurinn væri í betri stöðu undir forystu Hönnu Birnu. Niðurstöður hennar gætu verið óþægilegar fyrir flokkinn.
Annars er varla annað eftir en að reyna að auglýsa á frekar almennum nótum – með myndum af fjölda frambjóðenda, smá talnaefni og myndum af huggulegu fólki á ýmsum aldri.
Hin leiðin er auðvitað að reyna að sýna fram á að loforð Framsóknar séu vitleysa. Það er til dæmis gert á Vef-Þjóðviljanum sem nú hamast í Framsóknarflokknum. En sjálfstæðismenn hafa verið hikandi í því efni, enda vilja þeir sjálfsagt ekki efna til mikils ófriðar við Framsókn – svona upp á ríkisstjórnarmyndun að gera.
Svo er reyndar annað sem vekur athygli. Það er framganga Morgunblaðsins þar sem er ritstjóri fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og eitt af stóru nöfnunum í sögu hans.
En hann hefur varla lyft litlafingri til að hjálpa flokknum og núverandi formanni í þessum raunum.
Eitt sinn var sagt að hinn raunverulegi uppeldissonur Margaret Thatcher í pólitík væri Tony Blair – úr Verkamannaflokknum. Og einhvern veginn er eins og Davíð Oddsson hafi meira dálæti á Sigmundi Davíð úr Framsóknarflokki en Bjarna Benediktssyni úr Sjálfstæðisflokki.