Það eru voða margir komnir í framboð. Þarf margt fólk til að manna alla þessa lista.
Svo eru auðvitað þeir sem hafa ætlað í framboð í mörg ár, en detta óvænt út á síðustu metrunum, eins og Guðmundur Franklín.
En ég ætla ekki að skrifa um hann. Líklega fóru tækifæri Hægri grænna út í veður og vind með þessari vandræðalegu uppákomu.
En svo er það hitt fólkið á listunum.
Ég hitti konu sem hafði fallst á að taka sæti neðarlega á lista eins af nýju framboðunum.
Hún var farinn að sjá eftir því. Efaðist um að hún ætti samleið með flokknum.
Hún spurði mig hvort hún ætti kannski að láta skrá sig af listanum. Ég svaraði að það væri ekki endilega sniðugt, enginn hefði tekið eftir því að hún væri þarna, en ef hún gerði eitthvað mál úr þessu kynni það að breytast.
Það gæti jafnvel komist í fjölmiðlana.
Því væri kannski frekar ráð að láta lítið fyrir sér fara, en kjósa svo eitthvað allt annað í kosningunum.