Það er alls ekki víst að fólk trúi kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Ekki einu sinni þeir sem segjast ætla að kjósa hann.
Andrúmsloftið í kosningunum er frekar eitthvað á þessa leið:
Framsóknarflokkurinn er þó að lofa einhverju, við trúum ekki endilega að hann standi við loforðin, en það sakar ekki að tékka á því. Þetta er svolítið eins og að spila í happdrætti þar sem sigurlíkurnar eru þó alveg sæmilegar.
Framsóknarmenn hafa þó nokkurn sannfæringarkraft og virka bjartir, það stafar talsverðri orku frá þeim – á móti virðist Sjálfstæðisflokkurinn hálfvolgur og dapur.
Og svo eru það stjórnarflokkarnir.
Það eina sem þeir hafa upp á að bjóða er að hamra á því að hér hafi orðið efnahagsbati. En það er boðskapur sem er erfitt að koma til kjósenda, þeir virðast ekki móttækilegir fyrir honum.
Og því er varla von á að fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna fari upp að ráði.
Árni Páll Árnason setti sig strax í það hlutverk að hann væri maðurinn sem segði þjóðinni satt um stöðuna – maðurinn sem fegraði ekki neitt. Í raun gerði Árni þetta ágætlega – og kannski hefði honum getað orðið eitthvað ágengt á öðrum tíma.
En kjósendur vilja frekar heyra fyrirheit um lausn úr skuldafjötrum en sannleikann sem Árni Páll býður upp á – þótt þeir trúi þeim ekki endilega.
´