Merkilegar eru greinar Birgis Þórs Runólfssonar hagfræðings sem birtast hér á Eyjunni. Heimurinn hjá honum er algjörlega svartur og hvítur, það fyrirfinnast engin blæbrigði. Þetta er sérstætt afbrigði af kreddufestu – fúndamentalisma.
Veröldin er smættuð niður í fáar einfaldar hugmyndir og allt er skýrt út frá þeim. Þetta er ekki ólíkt því sem marxistar stunduðu í eina tíð.
Nú tek ég fram að ég skrifa þetta ekki til að lenda í ritdeilu við Birgi. Það virðist vera sérstaklega óheppileg aðstaða til að vera í.
En það er með þróunarhjálpina. Birgir segir að hún sé „svokölluð þróunaraðstoð“ og að hún „beri engan árangur“. Hann birtir línurit, eins og honum er gjarnt.
Ekki skal ég gera lítið úr því að peningar sem eru ætlaðir í þróunarhjálp lendi í höndunum á spilltri yfirstétt, til dæmis í Afríku. Það er vandamál.
En á móti kemur að fyrir fé úr þróunaraðstoð eru byggðir spítalar – þar er væntanlega bjargað mannslífum.
Eða getum við ekki sammælst um að mannslíf séu dýrmæt – þó kannski ekki ef við mælum allt í peningum?
Fyrir þróunaraðstoð eru börn bólusett, það eru rekin barnaheimili og skólar – einstaklingum er hjálpað til að mennta sig. Við Íslendingar höfum kennt framandi þjóðum fiskveiðar og fiskeldi, hjálpað til við nýtingu jarðhita. en við höfum líka aðstoðað við að byggja upp barnaheimili, verið í verkefnum sem beinast gegn ofbeldi gegn konum, gegn alnæmi, til að losa börn sem lenda í þrældómi úr ánauð – auk þess sem ýmis verkefni tengjast vatnsöflun, brunnum og áveitum.
Hefur líf einhverra einstaklinga orðið betra vegna þessa en ella? Eða er þetta „enginn árangur“ eða beinlínis skaðlegt?
Ég hef áður nefnt frænda minn einn sem áratugum saman var læknir í Afríku– við sjúkrastofnanir sem voru reknar fyrir erlent fé. Lengi var hann eini læknirinn í risastóru héraði. Fólk kom langar leiðir til að hitta hann. Hann hefur sjálfsagt bjargað fjölda mannslífa, ég hef ekki heyrt hann gorta sig af því. Fyrir nokkru hitti ég mann sem sagði að frændi minn væri goðsögn í lifanda lífi á svæðinu þar sem hann starfaði.
Ég veit að hjá honum snerist þetta aldrei um peninga eða þjóðahagfræði. Bak við tölurnar er nefnilega fólk af holdi og blóði.
Og af því ég nefndi marxista hér áðan þá voru þeir einmitt alveg á móti hjálparstarfi. Fyrir menn eins og Lenín var allt slíkt borgaralegt, bjánalegt og skaðlegt – og samræmdist ekki hinni stóru einföldu hugmynd sem hann aðhylltist og átti að vera vísindi.