Við förum austur fyrir fjall í Kiljunni í kvöld.
Við Ölfusárósa hittum við Þorlák Karlsson, en hann er höfundur ljóðabókarinnar Tuttugu þúsund flóð. Þorlákur er alinn upp á Hrauni í Ölfusi og stundaði eins og bændur þar laxveiði í Ölfusá. Frá því er sagt í bókinni sem gerist eitt sumar, árið 1974.
Á Eyrarbakka förum við í nýstofnaða konubókmenntastofu, en þar er verið að setja upp safn með bókum eftir konur.
Í þáttinn koma svo Hafliði Vilhelmsson sem hefur nýskeð sent frá sér skáldsöguna Svartþröst og Sigurlín Bjarney Gísladóttir höfundur ljóðabókarinnar Bjarg. Hafliði hefur ekki gefið út bók síðan 1997 en Bjarg eftir Sigurlín segir frá lífinu í stórri blokk.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Tiplað með Einstein eftir Joshua Foer. Hún fjallar um minnið, hvernig hægt sé að rækta það, höfundurinn einsetur sér að verða minnismeistari Bandaríkjanna og tekst það. Hin bókin er safn þýðinga á ljóðum eftir norska stórskáldið Tor Ulven sem nefnist Steingerð vængjapör. Það er Magnús Sigurðsson sem þýðir ljóðin eftir þetta stórmerkilega skáld.
Bragi talar meðal annars um tvo vini sína, Alfreð Flóka og Geir Kristjánsson.
Sjálfsmynd eftir Alfreð Flóka frá yngri árum.