Ég skrifaði fyrr í dag um skoðanakannanir – nei, ég er ekkert sérstaklega þeirrar skoðunar að þær eigi að banna fyrir kosningar, en það er allt í lagi að velta fyrir sér hvaða áhrif þær hafa.
Tökum til dæmis skoðanakönnun sem Stöð 2 birti í kvöld. Hún var kynnt eins og hefði orðið fylgishrun frá hjá Framsókn.
Flokkurinn fékk ekki „nema“ 30,3 prósent. Það er minna en 40 prósentin sem flokkurinn fékk í síðustu könnun Stöðvar 2/Fréttablaðsins.
En þess er að gæta að sú könnun var mjög einkennileg – Framsókn hefur ekki farið næstum því svona hátt í neinni annarri skoðanakönnun. Hún var algjörlega á skjön við aðrar kannanir sem voru gerðar á sama tíma.
Miðað við aðrar kannanir er flokkurinn nokkurn veginn að halda sínu. 30 prósent er náttúrlega fáheyrt fylgi í seinni tíma sögu Framsóknarflokksins.
Gunnar Smári Egilsson gerir ágætlega grein fyrir þessu í færslu á Facebook síðu sinni:
„Síðasta könnun Fréttablaðsins/Stöðvar 2 var svo vitlaust að skynsamlegra er að bera þessa nýju saman við þá sem var gerð fyrir mánuði. Breytingin milli þessara kannana er nánast engin hjá fjórflokknum. B fer úr 31,9% í 30,3%, D úr 27,6% í 26,9%, S úr 13,8% í 13,7% og V úr 7,1% í 7,9%. Sveiflan er meiri hjá nýju framboðunum; BF fer úr 9,1% í 6,5%, Píratar úr 1,8% í 5,6% og allir hinir úr 8,7% í 9,1%. Samandregin og afrúnuð niðurstaða eins mánaðar af kosningabaráttu: BF tapar 2,5%, B tapar 1,5% og Píratar græða 4%.“
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur tekið saman meðaltal kannana og reiknar það eftir aðferð sem hann gerir grein fyrir með svofelldum hætti:
„Mæling mælinganna á fylgi flokka: Staðan í könnunum frá áramótum fram til dagsins í dag er eins og myndin sýnir. Reiknað er meðaltal allra kannana á nokkrum tímabilum. Meðaltölin eru vegin þannig að tekið er tillit til mismunandi úrtaksstærðar milli kannana.“
Svona leit þetta út hjá Grétari á sunnudag. Miðað við þetta sýnir könnun Stöðvar 2 ekkert fylgishrun hjá Framsókn, en Sjálfstæðisflokkurinn þokast aðeins upp.
Það verður fróðlegt að sjá skoðanakönnun sem RÚV birtir á morgun. Þá ætti að koma ljós hvernig fylgið er að hreyfast.