Á mbl.is er gerð ágæt úttekt á vægi atkvæða eftir kjördæmum. Þar kemur meðal annars fram að þingmaður í Suðvesturkjördæmi þar sem atkvæðavægið er minnst þarf 82 prósent fleiri atkvæði til að komast á þing en þingmaður í Norðvesturkjördæmi, en þar er atkvæðavægið mest.
Elín Hirst og Eygló Harðardóttir þurfa semsagt 82 prósent meira fylgi en Jón Bjarnason og Haraldur Benediktsson til að komast á þing.
Á bak við hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi eru 4858 atkvæði, en á bak við hvert þingsæti í Norðvesturkjördæmi eru 2668 atkvæði.
Stundum hafa verið gerðar tilraunir til að færa rök fyrir þessum mun, að hann jafni að einhverju leyti mismunandi aðstöðu fólks í dreifbýlis- og þéttbýliskjördæmum.
Það verður samt tæplega séð að fólk í til Vallahverfinu í Hafnarfirði eða Salahverfinu í Kópavogi njóti einhverra fríðinda umfram til dæmis íbúa Skagafjarðar, Búðardals eða Ísafjarðar að það réttlæti þetta.
Grundvallaratriðið er þó að ef þarf að jafna misvægi milli landshluta, ætti að gera það með aðferðum sem beinlínis vinna gegn slíku misvægi – ekki með því að skerða kosningarétt sumra á kostnað hinna.