Bókin um Litla prinsinn er 70 ára í dag.
Le petit prince kom fyrst út í Bandaríkjunum 1943. Höfundurinn, Antoine de Saint-Exupéry, bjó þar, hann flúði undan nasistum þegar þeir lögðu undir sig Frakkland 1940.
Bókin kom tveimur árum síðar út í Frakklandi og hefur síðan verið þýdd á um það bil 250 mál. Fáar bækur hafa farið víðar. Fyrir marga eru þetta fyrstu kynnin af frönskum bókmenntum.
Þetta er hugljúf saga á heimspekilegum nótum, um flugmann sem nauðlendir í eyðimörk og kynnist litlum prinsi sem kemur utan úr geimnum.
Sjálfur var Saint-Exupéry flugmaður og hafði lent í því að að vera fastur í Sahara-eyðimörkinni.
Saint-Exupéry var afar listrænn maður, hafði numið byggingalist á yngri árum, og myndirnar í bókinni eru eftir hann. Þær eru algjörlega óaðskiljanlegur hluti af verkinu og víðast hvar er Litli prinsinn gefinn út með sama sniði. Bókin er listaverk í heild sinni.
Sjálfur fórst Saint-Exupéry stuttu eftir útgáfu bókarinnar, flugvél hans týndist í Miðjarðarhafi þar sem hann var í njósnaflugi 31. júlí 1944. Líklega var hún skotin niður.
Hann samdi fleiri verk sem eru lesin, þær snúast margar um flug: Vindur, sandur stjörnur heitir ein, Næturflug önnur, og svo er bókin Suðurpósturinn, Courrier sud.
Eins og segir eru til útgáfur af Litla prinsinum á fjölmörgum tungumálum. Það mun vera nokkuð vinsælt að safna þeim. Fyrsta íslenska útgáfan er frá 1961. Það var Menningarsjóður sem gaf út, en þýðandinn var Þórarinn Björnsson.
Þessi útgáfa mun vera nokkuð fágæt.
Frænka mín gaf mér hana þegar ég var lítill strákur. Hún var lengi upp í hillu hjá mér – en hvar er hún nú? Gaf ég hana án þess að muna eftir því?
Ein af hinum gullfallegum myndum Saint-Exupérys úr Litla prinsinum.