Ég fer stundum í Hafnarfjörð og skoða mig um í gömlu hverfunum þar. Sumar göturnar eru með þeim fegurstu á Íslandi, þar ríkir kyrrð og samræmi. Það er gaman að fara upp á Hamarinn og í skemmtigarðinn Hellisgerði. Í Strandgötunni má svo finna perlur eins og Bæjarbíó – sem hýsir Kvikmyndasafn Íslands – og kaffihúsið Súfistann.
En því miður er það svo að mörgu í Hafnarfirði hefur verið spillt. Það var lögð stór akbraut meðfram höfninni sem eitt sinn var ein hin fallegasta á Íslandi. Það var byggt stórt verslunarhús sem nefnist Fjörðurinn, ógurlega forljótt, og í kringum það er flæmi bílastæða, milli gamla bæjarins og hafnarinnar. Í byggingaæðinu sem rann á landsmenn – og ekki síst bæjarstjórn Hafnarfjarðar – í upphafi aldarinnar voru svo byggðar stórar blokkir norðanmegin í höfninni.
Þetta er allt frekar dapurlegt – en því má þó fagna að gömlu göturnar ofar í bænum eru margar óspilltar. Ég held til dæmis að Austurgata geti gert tilkall til að vera fallegasta gata á Íslandi.
En svo eru skipulagsmistök sem hægt er að laga. Til dæmis má nefna þetta sérstaklega ljóta stórhýsi sem stendur við Lækinn í Hafnarfirði, við sjálfa Lækjargötu. Húsið virðist mestanpart standa autt, en það er nánast eins og það sé að kyrkja húsin í kringum sig, sem eru öll miklu smærri.
Hvað er því til fyrirstöðu að rífa svona byggingar sem augljóslega eru hörmuleg skipulagsmistök? Og þá kannski líka Morgunblaðshúsið í Reykjavík?
Umrætt hús, sem líklega er Lækjargata 2, séð frá Strandgötunni.
Og hér er byggingin, séð ofan frá Hamrinum.