Það er sérkennileg staða stuttu fyrir kosningar að upplausn skuli ríkja í tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins. Um tíma var talað um þessa flokka sem turnana í íslenskri pólitík.
Samfylkingin logar stafna á milli vegna stjórnarskrármálsins, nýkjörinn formaður á ekki sjö dagana sæla. Eins og staðan er virðist afar ólíklegt að Árni Páll geti gert stjórnarskrársinnum innan flokksins til hæfis. Þeir eru háværir, jafnt innan þingliðsins og utan. Það er aldeilis meðgjöfin sem Árni Páll fær frá Jóhönnu að þurfa að klára þetta mál á síðustu vikum þingsins.
Einhvern veginn virðist ekki ólíklegt að fylgi Samfylkingarinnar helmingist í kosningunum í vor – það verður erfitt fyrir flokkinn. Hann gæti farið úr því að vera fylgismesti flokkur landsins, líkt og hann var í síðustu kosningum, í að vera þriðji eða fjórði stærsti flokkurinn.
Innan Sjálfstæðisflokksins er deilt vegna Evrópumála, en einnig ríkir óánægja meðal margra flokksmanna vegna afstöðunnar til skuldamála og svo vegna þess að formaðurinn þykir ekki nógu túverðugur. Upp úr sauð vegna Evrópumálanna í vikunni – það ganga hnútur milli gamalla Sjálfstæðismanna og ritstjóra Morgunblaðsins, sem þykir ráða alltof miklu bak við tjöldin.
Það var jú gamall félagi hans, Geir Waage, sem lagði fram landsfundartillöguna sem fór svo fyrir brjóstið á Evrópusinnum. Þeir Geir og Davíð eru reyndar tengdir fjölskylduböndum líka.
Landsfundurinn í síðasta mánuði afhjúpaði í raun veikleika í flokknum fremur en að sýna styrk hans, eins og stefnt er að á slíkum samkomum.
Kosningasigurinn sem Sjálfstæðismenn létu sig dreyma um fyrr á kjörtímabilinu fjarlægist nú óðum. Meðan ástandið er svona í flokknum eykst fylgið varla. Á meðan dafnar Framsóknarflokkurinn – slagkrafturinn á þeim bæ er ólíkt meiri.
Enn virðast mestar líkur á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, en það verður ekki mikil gleði í Sjálfstæðisflokknum ef fylgið fer ekki vel yfir þrjátíu prósent.
Framboðslistar eiga eftir að birtast, en það er spurning hvort minni framboð eigi betri möguleika á að komast á þing nú þegar slíkt ástand ríkir innan stærstu flokkanna:
Eiga Hægri grænir, Dögun og Lýðræðisvaktin kannski séns?