Það yrði náttúrlega áfall fyrir ríkisstjórnina að falla vegna vantrausttillögu.
Manni skilst reyndar að ekki sé mikil hætta á því.
En ef hún félli yrði að skipa stjórn til að sitja þangað til ný ríkisstjórn yrði mynduð að loknum kosningum. Nú er búið að setja kjördag 27. apríl og ekki líklegt að menn vilji breyta því.
Vantrauststillaga Þórs Saari er svohljóðandi:
„Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún situr í umboði meiri hluta þingsins, en þingið getur ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.
Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.
Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.“
Sumt í þessu er athyglisvert. Þór vill að ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka sitji fram að kosningum – á því eru nokkrir annmarkar, það er í höndum forseta Íslands að hafa frumkvæði um slíka ríkisstjórn – og svo er allsendis óvíst að allir flokkarnir í þinginu kæri sig yfirleitt um að taka þátt í svo skammlífri ríkisstjórn. Eða hvaða hag ættu þeir að hafa af því?
Og svo er það hitt að í vantrausttillögunni segir beinlínis að hún sé lögð fram vegna vanefnda í stjórnarskrármálinu – vegna þess að „ríkisstjórnin gangi í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar“.
Nú skilst manni að stjórnarandstaðan ætli að greiða atkvæði með vantraustinu, fyrir utan þingmenn Bjartrar framtíðar.
En er henni stætt á því í ljósi þess að í þingsályktunartillögu Þórs eru ýmis atriði sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru meira og minna á móti, hlutir sem flokkarnir myndu aldrei geta skrifað undir. Snýst þetta um einhver prinsíp í stjórnarskrármálinu – sem það sannarlega gerir frá bæjardyrum Þórs Saari – eða um að slá einhverjar pólitískar keilur?