Öystein Stray Spetalen er einn ríkasti maður í Noregi, milljarðamæringur og fjárfestir.
En hann er ómyrkur í máli í garð fjármálastofnana í viðtali sem sagt er frá í Dagens Næringsliv.
Spetalen segir að bankar haldi fólki í gíslingu, þeir beiti heilu samfélagin ógnarstjórn. Með spákaupmennsku séu þeir stöðugt að hækka verð á hrávöru og þeir smyrji okurvöxtum á lán sem þjóðir eins og Grikkir geti ekki borgað.
Þessi fjárkúgun skaðar almenning og gerir ekkert til að auka verðmæti í samfélaginu, að mati Spetalens.
Spetalen segir að hnekkja þurfi valdi banka og spákaupmennsku þurfi að brjóta á bak aftur, í staðinn eigi að leggja áherslu á að byggja upp alvöru atvinnugreinar eins og þekkingariðnað.
„Allt tal um frjálsan markað byggir á hlægilegum kenningum frá níunda áratugnum sem virka ekki í raunveruleikanum,“ segir Spetalen. „Það er skammvinn gleði að flytja framleiðsluna burt til fátækra landa þar sem kostnaður er lágur. En hvað gerist svo þegar maður er búinn að grafa undan stoðum eigin efnahagslífs og ekkert blasir við nema skelfingin ein. Ég hef reynt að segja Höyre þetta, en án árangurs.“