Hvað verður um stjórnarflokkana ef útreið þeirra í kosningunum verður eins og allt bendir til?
Það er útlit fyrir að þeir missi meira en helming af kjörfylginu frá því í síðustu kosningum, fylgi Samfylkingarinnar.
Í kosningunum 2009 fékk Samfylkingin 29,8 prósent – og var langstærsti flokkurinn.
Vinstri grænir fengu 21,7 prósent.
Samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem birst hefur er Samfylkingin með 12,8 prósent, VG með 8,7 prósent.
Maður sér heldur ekki hvar möguleikar flokkanna liggja í kosningabaráttunni. Þeir ná ekki að gera sér mat úr þeim efnahagsbata sem þó hefur orðið og lágum atvinnuleyisistölum. Það er eins og enginn hlusti þegar er talað um þetta.
Framsókn hefur náð málefnalegu frumkvæði og stjórnin er í sífelldri vörn, nú er hún farin að tala um samninga við erlenda kröfuhafa bankanna eins og þar sé um nýtt Icesave-hneyksli að ræða.
Ef niðurstöðurnar verða líkar síðustu skoðanakönnunum myndu stjórnarflokkarnir virka eins og þeir væru úrvinda, spent force heitir það á ensku. Mótstaðan í stjórnarandstöðu yrði varla mikil fyrst um sinn. Flokkarnir myndu frekar horfa inn á við í angistarfullri naflaskoðun.
Það er svo sennilegt að Björt framtíð verði í stjórnarandstöðu ásamt Samfylkingu og VG. Það er spurning hvaða framtíð BF á þar – eða hvort hún myndi barasta renna saman við Samfylkinguna? Fylgi BF er að dragast saman í skoðanakönnunum, líklegt að flokkurinn hafi toppað of snemma.
Þá má líka velta fyrir sér þeim þingmönnum VG sem eftir verða – fyrir utan Ögmund (og kannski Steingrím) virðast þeir eiga ágætis samleið með Samfylkingu – svona upp á framtíðina að gera.
Við myndum semsagt hafa þrjá litla til meðalstóra flokka í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem hefur mikinn þingstyrk. Það gæti kallað á uppstokkun.
Auðvitað gæti þetta verið öðruvísi ef einhver þessara flokka nær að krafsa sig inn í ríkisstjórn. En það virkar ólíklegt.