Helsta vörn Sjálfstæðisflokksins gegn stórsókn Framsóknar virðist vera sú að ef flokkurinn fær svo mikið fylgi muni hann fara í vinstri stjórn.
Þetta er samt ekkert sérlega líklegt. Málefnalega er langstyst milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Maður sér til dæmis varla að Framsókn hætti sér út í að gefa mikið eftir í Evrópumálum, verandi með Ásmund Einar Daðason, Vigdísi Hauksdóttur og Frosta Sigurjónsson innanborðs. Þau eru öll harðir evrópandstæðingar og vildu helst slíta aðildarviðræðum strax.
Bakland Framsóknar mun ábyggilega þrýsta á um stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Slík ríkisstjórn er semsagt langlíklegust. Spurningin er fyrst og fremst hvor flokkurinn verður stærri – og fær þá forsætisráðuneytið. Það yrði erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að lúta í lægra haldi fyrir Framsókn og þurfa að gefa það eftir.
Menn hafa verið með alls konar fabúleringar um hvernig ráðherralisti slíkrar stjórnar gæti litið út, en líklega verður hann eitthvað á þessa lund, ef Framsókn er stærri:
Forsætisráðherra: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Utanríkisráðherra: Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra: Illugi Gunnarsson
Menntamálaráðherra: Hanna Birna Kristjánsdóttir
Atvinnuvegaráðherra: Gunnar Bragi Sveinsson
Umhverfisráðherra: Sigurður Ingi Jóhannsson
Innanríksisráðherra: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Velferðarráðherra: Eygló Harðardóttir