Framsókn kemur með tillögur um að stórefla matvælaframleiðslu í landinu.
Það er í sjálfu sér gott og gilt. Hollur er heimafenginn baggi. Það er best að borða sem mest af mat sem verður til í nærumhverfinu. Það er umhverfisvænt og hollt.
En tillögunum hljóta í raun að fylgja stórfelldar breytingar á landbúnaðarkerfinu – ég er ekki viss um að Framsókn eigi við það.
Þá er ekki endilega átt við að hætt skuli að styrkja landbúnað, hann er styrktur í bak og fyrir víða í okkar heimshluta. En löngum hefur verið talað um nauðsyn þess að breyta styrkjum til landbúnaðar úr framleiðslustyrki í nýtingar- og búsetustyrki, það er þróunin í Evrópu.
Það þarf að auka fjölbreytni í ræktun og framleiðslu.
Stefnan hefur því miður fremur verið í öfuga átt. Nú er svo komið að ekki eru nema örfá sláturhús í landinu – búfénaði er ekið langa vegu þangað. Mjólkur- og ostaframleiðsla er mestanpart á hendi eins aðila.
Samkeppnin er hérumbil engin. Við vitum minnst um hvaðan kjötið í búðunum kemur og ekki heldur ostarnir.
Það hefur reyndar verið smáhreyfing í átt að því að koma vörum frá smáframleiðendum til neytenda á höfuðborgarsvæðinu, eins og sést til dæmis í verslunum Frú Laugu. Þetta er alþjóðleg þróun sem víða erlendis er orðin mainstream, en hér er þetta afar smátt í sniðum. Það eru örfáar búðir sem selja slíka vöru – vöxturinn er miklu meiri í lágvöruverðsverslunum þar sem allt er vakúmpakkað og verksmðjuframleitt.
En það er ýmislegt hægt. Það er ekki svo langt síðan að var bara ræktuð ein tegund af tómötum á Íslandi – nú er hægt að velja úr mörgum sortum og þær eru miklu bragðbetri en gömlu stöðluðu tómatarnir. Það er stór markaður fyrir jarðarber á Íslandi – ræktun á þeim hér heima færist í aukana. Það eru líka möguleikar á að rækta fleiri tegundir af berjum, til dæmis hindber.
Þetta eru bara dæmi.
Í tillögum Framsóknar er líka talað um matvælaframleiðslu á alþjóðamarkað. Það er viðkvæmt mál. Við Íslendingar seljum reyndar mikið af matvælum út um allan heim, í gegnum fiskveiðar okkar. En kjötútflutningur hefur aldrei verið ábatasamur – af honum er ekki góð reynsla. Mjólkurútflutningur frá Íslandi yrði varla nema dropi í haf. Og grænmeti sem er ræktað í íslenskum gróðurhúsum verður seint samkeppnishæft þegar það er komið á markað erlendis.
Svo er þess að gæta að útflutningur á landbúnaðarvörum er víða háður ströngum höftum, tollum og gjöldum – af nákvæmlega sömu sort og við höfum sett upp hér á landi í miklum mæli.
Þannig færi okkur líklega betur að finna eitthvert afmarkað svið þar sem við getum náð árangri, en þá þarf að leggja meiri áherslu á hið einstaka, gæðavöruna sem verður til við sérstök skilyrði, fremur en kjöt sem fer í sömu örfáu sláturhúsin og verksmiðjuframleidda osta. Kannski væri einfaldlega fyrsta skrefið að koma upp alvöru markaði fyrir slíkt meðal neytenda í Reykjavík.
Annars gæti verið hætt við að átak af þessu tagi yrði nýtt loðdýra-/laxeldisævintýri.