Stjórnmálaleiðtogi getur ekki tekið stærri ákvörðun en að fara í stríð. Með því hættir hann lífi og limum landa sinna – og fólks af öðrum þjóðum, almennings ekki síður en hermanna. Hann hefur tekið sér vald yfir lífi og dauða.
Þetta er grafalvarlegasta mál sem stjórnmálaforingi getur fjallað um, í lýðræðisríki verður að reyna allar leiðir áður en farið er í stríð. Í einstaka tilvikum kann það að vera réttlætanlegt – en við erum ekki að tala um þrjóta eins og Hitler eða Djengis Khan.
Það er sífellt að koma betur og betur í ljós að George W. Bush og Tony Blair beittu lygum til að hefja stríð gegn Írak – nú eru rétt liðin tíu ár síðan það hófst. Stofnanir ríkja þeirra voru notaðar til að hanna lygarnar.
Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér stærra afbrot hjá stjórnmálaleiðtoga en að ljúga til að komast í stríð – hver er þá orðstír Bush og Blairs? Hvernig komast svona menn til valda og fá að beita slíkum aðferðum?
Hér má sjá frétt Guardians um nýjar upplýsingar í Íraksmálinu. Þær verða birtar í Panorama-þætti í BBC og segir þar að leyniþjónusturnar CIA og MI6 hafi haft upplýsingar um að Írak væri ekki að framleiða nein gereyðingarvopn.