Philip Inman skrifar á vef Guardian og segir að aðferðin sem nota eigi á Kýpur, að leggja skatt á innistæður í bönkum, sé fullkomlega eðlileg við þau skilyrði sem þar ríkja.
Kýpur sé algjörlega gjaldþrota, þó séu þar margvíslegir atvinnuvegir og há þjóðarframleiðsla. En fjármálageirinn á eyjunni er risastór, aðallega vegna þess að landið er fjármagnsparadís.
Rússar sem eiga mikla peninga í kýpverskum bönkum eru reiðir – sem og bankastofnanir í Evrópu. Þarna er mikið af fé í bönkum sem hefur leitað þangað einmitt vegna þess að Kýpur er skattaskjól.
Þegar allt hrynur er víst að þetta fjármagn reynir að komast úr landi – meðan þeir sem eiga lítið sitja uppi með reikninginn.
En er ekki eðlilegra að þeir borgi sem eiga pening, en þeir sem eiga ekki neitt? Á að leggja þetta á launafólk, sem þénar kannski bara nóg til að lifa af hvern mánuð, í gegnum lakari kjör og versnandi velferðarkerfi.
Inman tekur þó fram að rétt sé að litlar innistæður á bankareikningum séu undanþegnar þessum skatti.
Hér á Íslandi voru bankainnistæður verndaðar upp í topp og eru það enn. En var það endilega rétt ákvörðun? Það er allavega umhugsunarvert – rétt eins og aðgerðirnar á Kýpur.