Það er forvitnilegt að velta fyrir sér mörkunum á því sem er leyfilegt og ekki leyfilegt á hverjum tíma – og hvernig þau færast til.
Til dæmis er það klámið. Nú er í alvörunni talað um að hefta aðgang að klámefni – sem er reyndar bannað með lögum. Það er ein þversögnin. Lögin eru bara þannig að enginn getur framfylgt þeim. En hugsanlega væri það stoppað ef einhver hér á Íslandi ætlaði að fara að framleiða klám í stórum stíl.
Allt í einu þykir í lagi að beita hörðu eftirliti með fíkniefnaneyslu – senda starfsfólk í próf til að mæla fíkniefni í blóði og reka það ef það verður uppvíst að hafa einhvern tíma reykt kannabis. Maður sér ekki að neinn sé að setja sig upp á móti þessu í alvöru. Það er samt ekki lögregla sem er að gera þetta, heldur hefur þetta eftirlit færst inn á vinnustaðina sjálfa. Það er sagt að starfsmenn samþykki þetta sjálfir, en eiga þeir eitthvað val þegar slíkt er ákveðið?
Á sama tíma þykja það frekleg inngrip í einkahagi fólks að ákveða hvaða nöfnum það megi skíra börn sín. Mörgum þykir eftirlit af því tagi gjörsamlega óþolandi.