Í Kiljunni á miðvikudagskvöld fjöllum við um tvo einstaklinga sem bjuggu í Reykjavík á fyrstu áratugum síðustu aldar – en kjör þeirra voru mjög ólík.
Annars vegar er það verkakonan Elka Björnsdóttir, sem hélt afar merkar dagbækur, sem nú hafa verið gefnar út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðu, og hins vegar ráðherrann Hannes Hafstein, en nú í vikunni opnar menningarmiðstöð í húsi við Grundarstíg þar sem hann bjó síðustu æviár sín.
Við fáum handhafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna í þáttinn – þau verða veitt sama dag.
Gagnrýnendur fjalla um tvær bækur: ð-ævisögu og finnskan reyfara sem nefnist Græðarinn.
Bragi sýnir hárbeittar skopmyndir úr stjórnmálabáráttu millistríðsáranna.
Síða úr dagbókum Elku Björnsdóttur. Þetta var afskaplega glögg kona og greinargóð. Bækurnar lýsa vel aldarfari, samtímaatburðum, kjörum alþýðu og erfiðri lífsbaráttu.